Nýtt lyf sem prófað hefur verið í Svíþjóð gefur von um að hægt sé að hægja á þróun insúlínháðrar sykursýki hjá börnum, kemur fram í frétt Svenska Dagbladet.
Lyfið Diamyd var prófað á 70 börnum á aldrinum 10 til 18 ára á átta sjúkrahúsum í Svíþjóð. Ekkert barnanna hafði haft sjúkdóminn lengur en í 18 mánuði og framleiddu þau öll enn eitthvert insúlín. Sýndu niðurstöður að insúlínframleiðsla þeirra sem tóku lyfið minnkaði síður en hinna.
Þykja niðurstöðurnar gefa góðar vonir um fækkun fylgikvilla á borð við augna- og nýrnaskemmdir.
Jafnframt gefur lyfið von um að hægt sé að auðvelda meðferð insúlínóháðrar sykursýki, sem oftast greinist hjá fullorðnum.