Stjórnendur sænska lággjaldaflugfélagsins FlyMe ætla að leggja það til við hluthafa að hlutafé félagsins verði aukið um þrettán milljarða króna. Tillagan verður lögð fyrir á hluthafafundi í lok mánaðarins.
Fyrirkomulag útboðsins verður með sama hætti og fyrr á árinu þegar FlyMe safnaði 2,7 milljörðum króna í nýtt hlutafé. Fyrir hvern hlut sem hluthafi í FlyMe á, fær hann að kaupa tíu nýja hluti á genginu 1,3. Síðasta gengi FlyMe var 2,60.
Stærsti hluthafinn í FlyMe er Fons, félag Pálma Haraldssonar og Jóhannesar Kristinssonar.
Áður hefur komið fram að stjórnendur FlyMe eiga í viðræðum við nokkur evrópsk lággjaldafélög um yfirtöku, þar á meðal Sterling og FlyNordic. Segir forstjórinn Fredrik Skanselid í viðtali við Dagens Industri að hann reikni með því að flugfélagið kaupi eitt til tvö þeirra.