Hópur þingmanna úr allsherjarnefnd fulltrúardeildar japanska þingsins kom hingað til lands í síðustu viku til að kynna sér einkavæðingu á Íslandi. Þingmennirnir óskuðu sérstaklega eftir upplýsingum um sölu á hlut ríkisins í Símanum í fyrra en póst- og fjarskiptamál í Japan heyra undir allsherjarnefndina.
Embættismenn frá innanríkis- og fjarskiptaráðuneyti Japans voru með í för auk starfsmanna þingsins. Sendinefndin fundaði í fjármálaráðuneytinu með Baldri Guðlaugssyni ráðuneytisstjóra, sem á sæti í einkavæðingarnefnd, og Stefáni J. Friðrikssyni, sérfræðingi í fjármálaráðuneytinu og starfsmanni einkavæðingarnefndar, samkvæmt upplýsingum frá fjármálaráðuneytinu.