Innlent

Tengjast nígerískum glæpasamtökum?

Grunur leikur á að par, sem stal tveimur bílaleigubílum og flutti úr landi, sé tengt nígerískum glæpasamtökum erlendis. Réttarhöld yfir parinu stóðu yfir í allan dag. Karlmaðurinn kom hingað til lands í maí og leikur grunur á að hann hafi þá verið að kanna möguleika á glæpastarfsemi hér á landi. Stuttu síðar kom kona til landsins og tókst þeim í sameiningu að stela tveimur bílaleigubílum. Öðrum bílnum komu þau úr landi en það var glænýr Mitsubishi Pajero jeppi frá bílaleigu í Keflavík. Sá bíll hefur ekki fundist. Hinn bílinn, Toyota Land Cruiser jeppa, tók parið á leigu í Reykjavík og náðust þau ásamt bílnum um borð í Norrænu fyrir um mánuði. Höfðu þá merkingar á bílnum verið afmáðar. Parið náði einnig að svíkja út rúmar þrjár milljónir úr tveimur íslenskum bönkum en til þess notuðu þau ellefu ávísanir. Grunur leikur á að fólkið sé með fölsuð vegabréf. Einnig leikur grunur á að þau tengist með beinum hætti nígerískum glæpasamtökum í Evrópu. Maðurinn hefur komið við sögu lögreglu víða um Evrópu á síðustu þrettán árum. Fólkið er í gæsluvarðhaldi þar sem hætta er talin á að þau flýi annars land. Gera þurfti hlé á réttarhaldinu í dag vegna ósæmilegrar hegðunar mannsins í dómsal. Og þegar hann var leiddur úr dómsalnum beraði hann afturenda sinn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×