Skoðun

Hvar höldum við að við séum?

Svanborg Sigmarsdóttir skrifar
Það hefur víst ekki rignt meira í þrjá áratugi á Akureyri. Svo sögðu fréttir í gær. Í byrjun júlí, hvað svo sem er annað í fréttum förum við Íslendingar að kvarta, hver í sínu horni, um að sumarið bara komi ekki. Svo er flogið eitthvað suður á bóginn þar sem við eigum í erfiðleikum með að þola 30 til 40 stiga hitann og sterka sólina. Skaðbrennum á fyrstu dögunum og þar með er fyrsta vika sólarlandaferðar orðin ónýt og þýðir ekki annað en að halda sig í skugganum eftir það.

Bankarnir auglýsa hvernig að það sé hægt að kaupa allt, jafnvel sólina og góða veðrið, bara ef við spörum. Eftir standa svo aðilar í íslenskri ferðaþjónustu sem reyna hvað þeir geta til hvetja landann til að ferðast innanlands, en mega sín lítils gegn þeirri trú Íslendinga um að það  eigi að vera miklu heitara; sumarið hafi verið miklu betra í fyrra, eða árið þar á undan.

Samanburðurinn var kannski hagstæðari hér áður fyrr, áður en það varð normið að fara suður á bóginn yfir sumartímann og fljúga í andstæðar áttir við farfuglanna. Þá var bara verið að bera saman íslenskt sumar við íslenskt sumar. Nú erum við að bera sumarið okkar við eitthvað sem hefur aldrei verið íslenskur raunveruleiki, og óneitanlega er samanburðurinn móðurjörðinni ekki hagstæður. Hér getum við lent í hagléli í júlí, rignt niður allan júnímánuð og skulfið úr kulda á ágústkvöldum. En það er bara það sem við eigum að eiga von á. Ekki nema við teljum það hagstætt að flytja landsmenn eitthvað í hlýjuna og stofna nýja íslenska nýlendu. Íslenska veðrið er óútreiknanlegt, rétt eins og fólkið.

Svanborg Sigmarsdóttir - svanborg@frettabladid.is




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×