Menning

Aukin sala á plötuspilurum

Plötuspilarar með gamla laginu fyrir vínylplötur seljast enn. Og það sem meira er: Salan eykst, löngu eftir að þeir voru dæmdir úreltir. Foreldrar unga fólksins í dag settu nálina á fóninn til að hlusta á tónlist, einnig afar þess og ömmur, langafar og langömmur. En svo komu geisladiskarnir. Fyrstu stóru geisladiskajólin á Íslandi voru árið 1989 og á örskömmum tíma véku plötuspilararnir fyrir nýrri tækni, geislaspilurum. Þeir gömlu hafa þó aldrei alveg horfið. Aðspurður hvort einhverjir kaupi enn plötuspilarar segir Reynir Reynisson, sölumaður hjá Pfaff, að sala á plötuspilurum sé góð og hún aukist frekar en hitt. Óðinn Valdimarsson, sölumaður hjá Hljómsýn, tekur undir þetta og segir aðspurður að fólk eigi mikið af gömlum vínylplötum og svo sé verið að endurútgefa ýmsar plötur í hágæðavínyl. Nokkrar verslanir selja enn plötuspilara og þeir kosta frá 14 þúsund krónum en algengasta verð er milli 20 og 60 þúsund krónur. En það eru ekki bara sérvitringar sem kaupa plötuspilara. Menn eru að finna gömlu vínylplöturnar í geymslunni og dusta rykið af, unglingar vilja kynnast gömlu rokkhljómsveitunum eins og þær hljómuðu af vinilplötum. Svo eru sumir sem segja að hljómurinn í geisladiskum sé verri en í gömlu plötunum. Óðinn segir vínylplötuna miklu skemmtilegri. Hún sé miklu mýkri og hljómurinn sé mun skemmtilegri. Reynir segir að hljómur úr góðum plötuspilara sé síst verri en úr góðum geislaspilara en það sé svolítið meira umstang í kringum plötunarnar.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×