Innlent

Út í hött, segir Grétar

Hæstiréttur staðfesti í dag tveggja og hálfs árs fangelsisdóm yfir þremenningunum í líkfundarmálinu í Neskaupstað. Jónas Ingi Ragnarsson og Tomas Malakauskas voru ekki viðstaddir þegar Hæstiréttur staðfesti dóminn. Aðeins Grétar Sigurðsson var viðstaddur. Hann sagðist ekki sáttur við að fá sömu refsingu og Jónas og Tomas. Samvinna hans við lögreglu hafi ekki verið metin sem skyldi. „Mér finnst þetta bara út í hött að öllu leyti,“ sagði Grétar. Aðspurður hvað taki við hjá honum nú þegar meðferð málsins er lokið, rúmu ári eftir að hann tók þátt í að sökkva líki Vaidasar Jucevicius við netagerðarbryggjuna í Neskaupstað, segist hann ætla að sinna heimilinu og vera til friðs. Hann segir það ekki erfiða tilhugsun að þurfa að fara í fangelsi, hann sé fyrst og fremst ósáttur við að fá sama dóm og Jónas og Tomas. Fyrst eftir líkfundinn í byrjun febrúar árið 2004 var talið að um kaldrifjað morð væri að ræða vegna stungusára á líkama Vaidasar og hversu vel líkinu hafði verið pakkað inn. En við krufningu fannst 61 fíkniefnapakkning í iðrum líksins og varð þá ljóst að Vaidas hefði látist vegna stíflu í mjógirni af völdum pakkninganna. Þremenningarnir voru dæmdir fyrir brot gegn fíkniefnalöggjöfinni, fyrir að hafa ekki komið manni í neyð til hjálpar og fyrir illa meðferð á líki. Auk þess var Grétar dæmdur fyrir vopnalagabrot.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×