Innlent

Ráðherra hlusti á launþega

Formaður BSRB segir nær að forsætisráðherra hlusti á kröfur launþega í stað þess að skammast út í þá. Í ræðu sinni á miðstjórnarfundi Framsóknarflokksins í gær boðaði forsætisráðherra verri stöðu í efnahagsmálum, ef allir fengju jafnmiklar launahækkanir og kennarar. Á fundinun í gær sagði Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra að ef allir fengju jafnmiklar launahækkanir og kennarar gæti þjóðfélagið ekki þolað það; það myndi leiða til verðbólgu sem yrði til þess að rýra kjör allra.  Samningar flestra opinberra starfsmanna renna út um næstu mánaðamót og samningar flestra bæjarstarfamannafélaga innan vébanda BSRB renna út í mars á næsta ári. Félögin setja fram kröfur hvert á sínum forsendum og eru að setjast við samningaborðið þessa dagana. Ögmundur Jónasson, formaður BSRB, gefur lítið fyrir varnaðarorð forsætisráðherra. Hann spyr hvort ekki væri nær að hlusta á fólk og þau rök sem það tefli fram, áður en byrjað er að skamma það. Halldóra Friðjónsdóttir, formaður Bandalags háskólamanna, segir félagsmenn sína raunsæja og að aðaláhersla verði lögð á að hækka lægstu launin í komandi kjaraviðræðum. Hún segist sannfærð um að þó allir ríkisstarfsmenn fengu launahækkanir færi efnahagslífið ekki í kaldakol, enda launahækkun kennara stórlega orðum aukin. Þá má minna á að kjarasamningar aðildarfélaga ASÍ verða endurskoðaðir í október á næsta ári með tilliti til verðbólgu og launaþróunar annarra hópa. Félögin fara þá væntanlega í gegnum þá umræðu hvort það teljist eðlilegt og rökrétt að laun kennara séu orðin 130 prósentum hærri en laun þeirra tekjulægstu innan ASÍ.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×