9,5 milljarða hagnaður Baugs Group

Hagnaður Baugs Group árið 2003 nam níu og hálfum milljarði króna eftir skatta. Eigið fé fyrirtækisins er 27,9 milljarðar króna og eiginfjárhlutfall er 50%. Þetta er mesti hagnaður hjá íslensku fyrirtæki á einu ári. Í tilkynningu frá Baugi Group segir að hagnaður ársins hafi numið 9,5 milljörðum, þrátt fyrir að 2,2 milljarðar króna hafi verið afskrifaðir hjá félaginu vegna gjaldþrots Bonus Stores í Bandaríkjunum Einnig er í uppgjörinu tekið tillit til hugsanlegra skattbreytinga, sem gætu fylgt í kjölfar frumskýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins, sem afhend var félaginu fyrir viku, en andmælaréttur er til 25. þessa mánaðar. Ekki kemur fram hve miklar skattbreytingar eru lagðar til í frumskýslunni. Góð afkoma Baugs Group stafar að meginstofni til af óinnleystum hagnaði af fjárfestingum félagsins í Bretlandi einkum vegna eignar félagsins á ríflega 22% hlut í Big Food Group plc. Aðrar fjárfestingar þar í landi hafa einnig skilað góðri ávöxtun en á árinu 2003 var fjárfest í Hamleys leikfangabúðunum, Oasis tískuvörukeðjunni, Julian Graves heilsuvörukeðjunni og LxB fasteignafélagi. Baugur Group hf. er nú kjölfestufjárfestir í alls 9 félögum hér á landi og erlendis og jafngildir velta þessara félaga um 130 milljörðum króna á ári. Hjá þessum félögum starfa samtals um 9.500 manns.