Gary Martin varð markahæsti leikmaður Pepsi Max-deildar karla 2019. Enski framherjinn tryggði sér gullskóinn með því að skora tvö mörk þegar ÍBV tapaði 3-2 fyrir Stjörnunni í lokaumferðinni í dag.
Gary skoraði alls 14 mörk í sumar, tólf fyrir ÍBV og tvö fyrir Val, í aðeins 15 leikjum. Hann varð einnig markakóngur Pepsi-deildarinnar fyrir fimm árum þegar hann lék með KR. Gary fékk silfurskóinn 2013.
Steven Lennon (FH), Thomas Mikkelsen (Breiðabliki), Elfar Árni Aðalsteinsson (KA) og Hilmar Árni Halldórsson (Stjörnunni) skoruðu allir 13 mörk.
Lennon spilaði fæsta leiki af þessum fjórum leikmönnum og fékk því silfurskóinn. Mikkelsen fékk bronsskóinn þar sem hann lék færri mínútur en Elfar Árni og Hilmar Árni.
Elfar Árni skoraði þrennu í 4-2 sigri KA á Fylki í dag. Lennon og Mikkelsen voru einnig á skotskónum í dag.
Hilmar Árni komst ekki á blað í dag. Hann var markahæstur fyrir lokaumferðina en endaði í 5. sæti markalistans.

