Ásmundur Arnarsson er hættur sem þjálfari meistaraflokks karla hjá Fram. Þetta kemur fram á heimasíðu félagsins.
Þar segir að stjórn knattspyrnudeildar Fram og Ásmundur hafi komist að samkomulagi um starfslok þjálfarans.
Ásmundur tók við Fram eftir tímabilið 2015. Undir hans stjórn endaði Fram í 6. sæti Inkasso-deildarinnar í fyrra.
Þegar sjö umferðir eru búnar að Inkasso-deildinni í ár situr Fram í 5. sæti með 11 stig. Frammarar hafa tapað síðustu tveimur leikjum sínum.
Ásmundur lék á árum áður við góðan orðstír hjá Fram.
Auk þess að þjálfa Fram hefur Ásmundur stýrt Völsungi, Fjölni, Fylki og ÍBV.
