Gróttu hefur verið dæmdur sigur gegn Stjörnunni í öðrum leik liðanna í undanúrslitum Olís-deildar kvenna vegna þess að Garðbæingar notuðu ólöglegan leikmann í leiknum.
Í fyrri hálfleik kom Stjörnukonan Nataly Sæunn Valencia inn á í fyrsta sinn í leiknum. Guðjón L. Sigurðsson stöðvaði leikinn enda var Nataly ekki skráð á skýrslu. Stjarnan fékk tveggja mínútna brottvísun og Nataly ekki að taka frekari þátt í leiknum. Stjarnan vann leikinn 22-25 en Gróttu hefur nú verið dæmdur sigur í honum.
Í 7. grein reglugerðar HSÍ um handknattleiksmót segir: „Ekki er heimilt að breyta leikskýrslu eftir að leikur hefst né bæta leikmönnum eða starfsmönnum inn á hana en þó er heimilt að færa leikmann í starfsmann eða starfsmann í leikmann hafi tilskyldum fjölda ekki verið náð á öðrum hvorum staðnum áður en leikur hefst.“
Þá segir í 33. grein reglugerð HSÍ um handknattleiksmót:
„Félag sem notar leikmann/þjálfara í leikbanni eða leikmann/þjálfara sem er að öðru leyti ólöglegur og slíkt er tilkynnt inn til mótanefndar með formlegum hætti innan 48 tíma frá lokum leiks, telst hafa tapað leiknum með markatölunni 0-10 þar sem leiktími er 2 * 30 min. nema tap hafi verið stærra, þá skal sú markatala ráða. Þar sem leiktími er styttri skal notast við 0-5.“
Niðurstaða mótanefndar er því sú að Stjarnan hafi notað ólöglegan leikmann í leik Gróttu og Stjörnunnar og telst því Stjarnan hafi tapað leiknum 0-10.
Óskað var eftir áliti lögfræðings HSÍ og evrópska handknattleikssambandsins (EHF) og voru þau samhljóða áliti mótanefndar HSÍ.

