„Á morgun er Sumardagurinn fyrsti á Íslandi og á sama tíma hefst nýr kafli í lífi mínu. Ég ákvað í febrúar að þetta yrði mitt síðasta tímabil í körfunni,“ segir Justin. Hann hefur spilað utan heimalandsins, Bandaríkjanna, undanfarin tólf ár en hann steig sín fyrstu skref í íslenskum körfubolta með Drangi í Vík í Mýrdal haustið 2004.
Síðan þá hefur hann verði lykilmaður með Snæfelli í Stykkishólmi áður en hann gekk til liðs við Garðbæinga árið 2008. Hann fékk íslenskan ríkisborgararétt árið 2011 og hefur spilað fyrir Íslands hönd.
Í lok færslunnar segist hann þó hafa farið á nógu marga tónleika með hljómsveitum á sínum „síðasta túr“ til að vita að maður eigi aldrei að segja aldrei.

Justin varð bikarmeistari með Snæfelli og tvisvar með Stjörnunni. Sigurinn í úrslitaleiknum gegn KR árið 2009 var sérstaklega eftirminnilegur. Jón Arnór Stefánsson hefur sagst enn eiga andvökunætur vegna tapsins en KR-ingar voru einstaklega vel mannaðir þetta ár.
Rætt var ítarlega við Justin Shouse í Fréttablaðinu fyrir fjórum árum og farið yfir körfuboltaævintýrið, allt frá Pennsylvaníu í Bandaríkjunum yfir í Garðabæinn með viðkomu í Þýskalandi og Stykkishólmi.