Innlent

Kosningabaráttan í Verzló kostar mikið
Dæmi eru um að frambjóðendur í Verzlunarskóla Íslands eyði á annað hundrað þúsund króna í kosningabaráttu fyrir nemendakosningar. Forseti Nemendafélagsins segir baráttuna geta gengið alltof langt. Einn nemandi skólans sagðist ekki tíma að fara í framboð því kostnaðurinn væri of mikill.

Ósátt við ráðstöfun fjármuna Framkvæmdasjóðs aldraðra
Formaður félags eldri borgara í Reykjavík er ósáttur við að Framkvæmdasjóður aldraðra greiði fyrir tilraunaverkefni heilbrigðisráðuneytisins. Hann segir einnig miklu brýnna að nota fé sjóðsins í uppbyggingu hjúkrunar- og dagvistunarrýma en í upplýsinga- og ráðgjafaþjónustu fyrir aldraða.

Nýjar siglingaleiðir vegna hlýnunar í heiminum
Bráðnun heimskautaíssins gæti skapað gríðarleg tækifæri fyrir Íslendinga. Þetta segir utanríkisráðherra en líkur eru á að nýjar siglingaleiðir séu að skapast undan ströndum Íslands.

Sjóvá og Ístak skoða 2+2 Suðurlandsveg
Sjóvá og Ístak hafa skoðað lausn sem byggir á 2+2 Suðurlandsvegi sem gæti flýtt framkvæmdum og gert það að verkum að tvöfaldur Suðurlandsvegur á milli Reykjavíkur og Selfoss væri tilbúinn árið 2010. Þessi lausn byggir á nokkrum mislægum vegamótum og hringtorgum, 2,5 metra bili á bili akreina, upplýstri akstursleið og vegriði. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu sem send var frá þeim í kvöld.

Wilson Muuga dreginn á flot um miðjan maí
Stefnt er að því að samningar um björgun Wilsons Muuga af strandstað við Hvalsnes verði undirritaðir í fyrramálið. Áætlun liggur fyrir um að draga flutningaskipið á flot á stórstraumsflóði þann 18. maí næstkomandi.

Heitavatnsæð í sundur í Hafnarfirði
Um klukkan 16:00 í dag kom í ljós mikill leki á aðalæð fyrir heitt vatn til byggða í Áslandshverfi, Völlum og á Hvaleyrarholti í Hafnarfirði. Heitt vatn kom úr jörðu frá leiðslu norðan við Öldugötu og hefur verið lokað fyrir rennsli. Viðgerð hefst strax og unnt er, en búast má við að henni verði ekki lokið fyrr en liðið er á kvöld. Heitavatnslaust verður í þessum hverfum á meðan.

Actavis kaupir Lyfjaþróun
Actavis hefur keypt íslenska fyrirtækið Lyfjaþróun hf., sem sérhæfir sig í þróun nefúðalyfja. Með kaupunum öðlast Actavis þekkingu á þróun á nýjum lyfjaformum sem félagið býr ekki yfir í dag. Kaupverð er ekki gefið upp.

Bjóst við kröfu á hendur hótelinu
Hótelstjóri Hótels Sögu segist hafa búist við því að aðstandendur hvataferðar klámframleiðenda sem ekkert varð af myndu krefja hótelið um bætur. Hópnum var úthýst af Hótel Sögu eftir mikla umræðu um væntanlega heimsókn hans.

Hvað má og hvað má ekki?
Suma vöru og þjónustu er heimilt að selja en þær má hins vegar ekki auglýsa. Svo er annað sem leyfilegt er að auglýsa en harðbannað að ástunda.

Krefja Hótel Sögu um bætur
Aðstandendur hvataferðar klámframleiðenda, sem fyrirhuguð var í Reykjavík í þessum mánuði en ekkert varð af, ætla að krefja Hótel Sögu um bætur fyrir að úthýsa þeim. Lögmaður hópsins segir að málið fari fyrir dóm, verði krafan ekki greidd, og útilokar ekki meiðyrðamál.

Segir ESB-aðild handan við hornið
Ísland mun ganga í Evrópusambandið fyrr en síðar, ekki síst vegna vaxandi þrýstings atvinnulífsins. Þetta er skoðun Jóns Baldvins Hannibalsson, fyrrverandi utanríkisráðherra.

Bjartsýni hjá forráðamönnum fyrirtækja
Mikill meirihluti forráðamanna fyrirtækjanna, 80 prósent, telur aðstæður í efnahagslífinu fara batnandi. Hlutfall þeirra sem telja aðstæður í efnahagslífinu betri hefur hækkað á síðustu mánuðum og er enn mjög hátt. Fyrirtæki í samgöngum, flutningum og þjónustu, bygginga starfsemi og veitum og í sérhæfðri þjónustu eru bjartsýnust á ástandið í efnahagslífinu.

Óhræddir á Ísafirði
Eigendur Netheima á Ísafirði eru hvergi bangnir þrátt fyrir umræðu um að allt sé á hverfandi hveli fyrir vestan um þessar mundir.

Má borga skatt af vændi
Fólki verður ekki bannað að greiða skatt af vændi, segir ríkisskattstjóri. Íslenskur karlmaður hyggst greiða virðisaukaskatt af blíðu sem hann kveðst hafa selt fiskverkunarkonu. Lögspekingar telja langsótt að kæra fjármálaráðherra, sem yfirmann ríkisfjármála, fyrir að hafa tekjur af vændi.

Biðu 15 tíma eftir TF-LÍF
Fimmtán klukkustundir liðu frá því beiðni barst um aðstoð vegna slasaðs sjómanns á hafi úti í gær þar til maðurinn var kominn um borð í TF-LÍF nú í morgun. Skipið var tæpar fjögurhundruð sjómílur frá landi og þyrlur landhelgisgæslunnar drífa ekki svo langt. Fáar vikur eru í að það horfi til betri vegar.

Breyttu þjóðsöng Íslendinga
Mörgum brá í brún þegar þeir horfðu á 300. þátt Spaugstofunnar í kvöld. Í lokaatriði þáttarins sungu Spaugstofumenn þjóðsöng Íslendinga með eigin texta. Í þættinum í kvöld hófst þjóðsöngurinn á þessum orðum: ,, Ó, stuð vors lands ". Textinn, sem er eftir Karl Ágúst Úlfsson, leikara er ádeila á virkjanastefnu Íslendinga

Hólaskóli verður háskóli
Hólaskóli verður að háskóla frá og með 1. júlí. Af því tilefni var boðað til hátíðar á Hólum í gær og stærsta hesthús landsins tekið í notkun. Það var landbúnaðarráðherra sem boðaði til hátíðarinnar en nýlega voru sett lög um Hólaskóla, Háskólann á Hólum. Lögin marka tímamót í sögu skólans og gefa honum tækifæri til þróunar á næstu árum.

Lögregla gerir upptæk mikið magn fíkniefna
Þrír karlmenn voru handteknir í gærkvöldi eftir að mikið magn fíkniefna fannst í húsnæði í vesturbæ Reykjavíkur. Mennirnir voru handteknir á staðnum þar sem þeir voru í óða önn að pakka efnunum á smærri umbúðir. Við leit fann fíkniefnalögreglan 250 grömm af hassi, 60 grömm af maríjúana, 20 E-töflur og 20 grömm af kókaíni. Þá voru mennirnir með nokkuð af fjármunum á sér. Yfirheyrslur yfir mönnum stóðu fram eftir degi í dag en þeir er nú lokið og telst málið upplýst. Þá var ein kona yfirheyrð í tengslum við málið. Í tilkynningu frá lögreglu segir að fíkniefnadeild LRH hafi komið að 107 málum frá áramótum. Það er umtalsverð fjölgun sé miðað við sama tímabil í fyrra.

Karlmaður hyggst kæra ráðherra fyrir að hagnast á vændi
Karlmaður á fimmtugsaldri kveðst hafa selt erlendri fiskverkunarkonu blíðu sína og ætlar að greiða virðisaukaskatt í ríkissjóð af því sem hann fékk fyrir. Hann hyggst síðan kæra fjármálaráðherra fyrir að hagnast á vændi.

Svona sprengja menn dekk á felgu
Félagar í 4x4 klúbbnum á Austurlandi og björgunarsveitarmenn frá Vopnafirði keyrðu stóra hálendis hringinn í síðustu viku á stórum og vel útbúnum jeppum. Eins og jeppamenn og fleiri þekkja þá eru góð ráð dýr þegar dekk fer af felgu. Það gerist hins vegar stundum þegar hleypt er úr dekkjunum. Það gerðist einmitt í ferð jeppamannanna í vikunni en eins og ferðalanganna var von og vísa þá kunnu þeir ráð við því. Á myndbandi sem gengið hefur um netið að undanförnu má sjá hvernig þeir sprengja dekkið aftur upp á felguna.

Vínrækt á Íslandi
Landbúnaður á Íslandi gæti átt eftir að njóta góðs af hlýnun jarðar í framtíðinni. Þetta kemur fram í nýjasta tölublaði Gluggans. Þar segir að á fyrirlestri sem Trausti Valsson umhverfisfræðingur hélt nýlega á vegum þóunarfélags Hrunamanna hafi ýmislegt komið í ljós. Meðal annars að í framtíðinni verði hægt að rækta hér sitthvað sem ekki hefur verið hægt áður. Tekur fréttamaður Gluggans sem dæmi jarðarber og vínber.

Elliðaá flæddi yfir bakka sína
Víða eru talsverðir vatnavextir vegna hlýinda og rigninga. Miklir vatnavextir eru í Elliðaám og við Sandskeið þessa dagana og hafa Elliðaár sem og Hólmsá flætt yfir bakka sína. Spáð er að hiti verði allt að 7 stig um helgina suð-vestanlands þannig að ár og lækir gætu bólgnað meira. Á sléttlendi hafa víða myndast stórar tjarnir og sumstaðar er eins og yfir stöðuvötn að líta því frost er í jörðu, og það kemur í veg fyrir að vatnið sjatni ofan í jarðveginn. Þá hefur hálku verið að taka upp af vegum og er hún horfin á láglendi, en hálkublettir eru sumstaðar enn á suður og vesturlandi, einkum á fjallvegum.

Biður menn að ,,perrast" annars staðar
Stefán Konráðsson, framkvæmdarstjóri ÍSÍ, gerir karlakvöld íþróttafélaga að umtalsefni sínu í pistli á vef ÍSÍ í gær. Þar segist hann hafa heyrt af því að nýlega hafi íþróttafélag haldið herrakvöld þar sem erótískar dansmeyjar hafi verið fengnar til að skemmta gestunum. Stefán segir í pistlinum að sér hafi verið brugðið við þetta sérstaklega í ljósi þeirrar umræðu sem varð í kringum mansal og vændi í kringum Ólympíuleikana í Aþenu og Heimsmeistarakeppni í knattspyrnu í Þýskalandi síðastliðið sumar.

Arðsamasta vegagerð sem hægt er að ráðast í
Sundabraut er arðsamasta vegagerð sem hægt er að ráðast í á Íslandi samkvæmt umhverfismati Vegagerðarinnar, segir Björn Ingi Hrafnsson stjórnarformaður Faxaflóahafna. Hann segir Sundabraut ekki bara til hagsbóta fyrir Faxaflóahafnir og íbúa á höfuðborgarsvæðinu, því hún muni stytta leiðir umtalsvert og breyta miklu fyrir íbúa á Vesturlandi og Norðurlandi.

Vilja færa málefni aldraðra og öryrkja til sveitarfélaga
Í gær var gengið frá skipun fulltrúa í nefnd sem á að koma með tillögur um hverning flytja má málefni aldraðra og öryrkja frá ríki til sveitarfélaga. Landsþing sveitarfélaga var haldið í Reykjavík í gær og þar kom fram tillaga þar sem skorað er á menntamálaráðherra að taka jákvætt í hugmyndir sveitarfélaga um að taka einnig yfir rekstur framhaldsskóla í tilraunaskyni, og hefja sem fyrst undirbúning að því í samvinnu við sveitarfélögin.

Þyrstur þjófur staðinn að verki
Lögreglan á Akureyri handtók í nótt innbrotsþjóf þar sem hann sat í hægindum sínum og blandaði sér drykk. Maðurinn hafði brotist inn á veitingastað í bænum og eitthvað verið þyrstur því hans fyrsta verk var að fara á barinn og blanda sér í glas. Lögreglan handtók manninn og gistir hann nú fangageymslur. Hann verður yfirheyrður síðar í dag. Ekki fylgdi sögunni hvaða drykk þjófurinn teigaði.

Tveir menn teknir með fíkniefni
Lögreglan á Suðurnesjum lagði hald á um 20 grömm af amfetamíni og 3 grömm af hassi í gærkvöldi og handtók tvo menn. Lögreglunni barst ábending um mann á hótelherbergi í bænum sem grunaður var um að vera með fíkniefni í fórum sínum. Við leit í herberginu fann lögregla 7 grömm af amfetamíni og 3 grömm af hassi. Maðurinn játaði við yfirheyrslur að hafa átt efnin og var látinn laus.

Þriggja bíla árekstur en engan sakaði
Þriggja bíla árekstur varð á Holtavörðuheiðinni um sex leytið í kvöld. Engin slys urðu á fólki en bílarnir þrír enduðu allir utan vegar. Töluverð hálka og slæmt veður var á slysstað og er talið að hálkan hafi valdið slysinu. Lögreglan í Borgarnesi er nú á staðnum og hefur lokað heiðinni á meðan bílunum er komið aftur upp á veginn.

Stórtjón í fárviðri á Akureyri
Stórtjón varð á Akureyri í gærkvöld þegar þakdúkur fauk af fjölbýlishúsi í fárviðri. Minnstu munaði að íbúi stórslasaðist í hamaganginum, vatn streymdi inn í íbúðir og íbúar sváfu ekki dúr.

Samstarf eflt um málefni heimilislausra
Stefnt er að því að efla samstarf milli allra þeirra sem komu að málefnum heimilislausra í samfélaginu. 40 til 60 eru nú heimilislausir á höfuðborgarsvæðinu. Kona á fimmtugsaldri sem var á götunni í fjögur ár sagðist hafa ákveðið að hætta að drekka þegar hún horfðist í augu við dauðann, í byl fyrir rúmum tveimur árum.