Innlent

Latibær tilnefndur til Emmy verðlauna
Magnús Scheving og Jonathan Judge voru í dag tilnefndir til Emmy verðlaunanna fyrir leikstjórn Latabæjarþáttanna. Þetta er í annað sinn sem Latibær er tilnefndur til Emmy verðlauna en í fyrra var Julianna Rose Mauriello, bandaríska stúlkan sem leikur Sollu Stirðu, tilnefnd sem fyrir leik sinn.
Jóhanna undrast synjun ríkisstjórnar
Jóhanna Sigurðardóttir segir frá því á bloggsíðu sinni í dag að forsætisráðuneytið hafi synjað beiðni hennar um að fá afhent öll þau gögn af ríkisstjórnarfundum þar sem málefni Byrgisins voru til umræðu.
Milestone tekur 16,5 milljarða lán
Fjárfestingafélagið Milestone ehf. hefur gengið frá lánasamningi við alþjóðlega fjárfestingabankann Morgan Stanley um töku láns fyrir 16,5 milljarða krónur til þriggja ára. Lánið er veitt í tengslum við endurfjármögnun félagsins.

Exista kaupir í Sampo í Finnlandi
Fjármálafyrirtækið Exista hefur keypt rúmlega 15 prósent hlut í finnska tryggingafélaginu Sampo Oyj. Áætlað meðalverð hlutanna í viðskiptunum nam 20,5 evrum á hlut en samkvæmt lokagengi hlutabréfa í Sampo í gær er markaðsvirði hlutanna um 1,9 milljarðar evra, eða um 170 milljarðar króna. Stjórn Exista hefur skuldbundið sig til að gefa út nýtt hlutafé í Exista í tengslum við kaupin.
Uppsett áskriftarverð Sýnar vegna HM réttlætanlegt
Samkeppniseftirlitið telur kostnaðarforsendur hafa réttlætt uppsett verð sjónvarpsstöðvarinnar Sýnar þegar val stóð á milli þess að kaupa áskrift þann tíma sem heimsmeistarakeppnin í knattspyrnu stóð yfir í fyrrasumar eða kaupa áskrift að Sýn til lengri tíma.

Seðlabankinn heldur stýrivöxtum óbreyttum
Seðlabanki Íslands ákvað í dag að halda stýrivöxtum bankans óbreyttum í 14,25 prósentum. Þetta er í takt við spár innlendra sem erlendra greinenda sem spáðu óbreyttum vöxtum.

Framtíðarlandið býður ekki fram í vor
Á fundi Framtíðarlandsins í kvöld voru greidd atkvæði um það hvort ætti að bjóða fram í alþingiskosningum í vor. Niðurstaðan var að 96 sögðu nei og 92 sögðu já. Því hefur verið ákveðið að bjóða ekki fram. Þar að auki þurfti aukinn meirihluta, eða 2/3 atkvæða, til þess að samþykkja tillöguna. Tillagan um framboð í komandi alþingiskosningum var því felld.
Erilsamt hjá lögreglunni í gær
Lögreglan á höfuðbrogarsvæðinu setti upp myndavél við Dalasmára í Kópavogi í gær. Brot fimmtán ökumanna voru mynduð. Meðalhraði hinna brotlegu var tæpir 46 km/klst. Þarna er 30 km hámarkshraði en sá hraðast ók var mældur á tvöföldum hámarkshraða. Eftirlit lögreglunnar í Dalasmára kom í kjölfar ábendinga frá íbúunum sem kvörtuðu undan hraðakstri á þessum stað. Annars staðar á höfuðborgarsvæðinu tók lögreglan tuttugu og fimm ökumenn fyrir hraðakstur.

Siv leiðir Framsókn í Suðvesturkjördæmi
Siv Friðleifsdóttir, Samúel Örn Erlingsson og Una María Óskarsdóttir skipa þrjú efstu sæti Framsóknarflokksins í Suðvesturkjördæmi. Þetta var niðurstaða aukakjördæmisþings í kvöld. Þingið hófst kl. 20:00 en þar var tillaga kjörnefndar að framboðslista fyrir komandi þingkosningar borin upp til samþykktar. Listinn var samþykktur án breytinga. Þess er gaman að geta að Steingrímur Hermannsson skipar heiðurssætið á listanum.

Enn rökrætt um framboð Framtíðarlandsins
Mjög fjölsóttur fundur Framtíðarlandsins stendur enn yfir á Hótel Loftleiðum. Mörg hundruð manns mættu á fundinn en gildan atkvæðisrétt höfðu einungis þeir sem gerst höfðu félagar fyrir tólf á hádegi á mánudaginn var. Á fundinum var borin upp tillaga stjórnar um að boðið yrði fram í nafni Framtíðarlandsins í næstu alþingiskosningum og drög að stefnu þar að lútandi var lögð fram.
Konan sem lýst var eftir er fundin
Konan sem lögregla höfuðborgarsvæðisins lýsti eftir í kvöld, Guðríður Bjarney Ágústsdóttir, er fundin. Hennar hafði verið saknað frá því fyrr í kvöld. Lögreglan vill koma þökkum á framfæri til þeirra sem aðstoðuðu við leitina.

Of seint að læra að prjóna
Það kom flatt upp á marga í íslenska flugheiminum fyrir 22 árum þegar Arngrímur Jóhannsson sagði upp stöðu sinni sem yfirflugstjóri Arnarflugs, stofnaði sitt eigið flugfélag, og keypti gamla Boeing þotu. Nú stendur hann enn á tímamótum, kominn í nýtt félag, og er í fyrsta sinn á ferlinum að láta smíða fyrir sig þotur.

Fulltrúi forseta mætti ekki á fund utanríkismálanefndar
Hvorki fulltrúi forsetaembættisins né utanríkisráðuneytisins mætti á fund utanríkismálanefndar í morgun, vegna setu forsetans í þróunarráði Indlands. Halldór Blöndal, formaður nefndarinnar, segir að utanríkisráðherra muni koma á fund nefndarinnar síðar.

Orðaskak á þingi vegna ummæla Frjálslyndra
Þingmenn Frjálslynda flokksins gerðu harða hríð að Sæunni Stefánsdóttur, þingmanni Framsóknarflokks og formanni Innflytjendaráðs, í upphafi þingfundar í morgun, fyrir að halda því fram að Frjálslyndi flokkurinn ali á mannfyrirlitningu og hatri í garð útlendinga í útvarpserindi í gær. Siv Friðleifsdóttir heilbrigðisráðherra kom félaga sínum til varnar og sagði frjálslyndi Frjálslynda flokksins komið langt frá upprunalegri merkingu orðsins.

Fiskimjölsverksmiðju við Krossanes lokað
Aldrei framar munu menn finna peningalykt á Akureyri. Ísfélag Vestmannaeyja hefur ákveðið að loka fiskimjölsverksmiðjunni á Krossanesi og eru viðbrögð bæjarbúa ekki öll á sama veg.

Hætt að miða við fyrri greiðslur
Hætt hefur verið að miða við fyrri greiðslur í fæðingarorlofi, þegar næsta barn fæðist innan þriggja ára, en umboðsmaður alþingis telur það ekki samræmast lögum. Þetta kom fram í fyrirspurnartíma á alþingi í dag. Magnús Stefánsson sagði, í svari við fyrirspurn Jóhönnu Sigurðardóttur, að starfshópur væri að skoða framkvæmd laganna í kjölfar niðurstöðu umboðsmanns og hann styddi þá breytingu sem þegar hefði verið gerð.

3 milljónir króna í miskabætur raunhæfar
Saga drengjanna í Breiðavík sýnir hvernig samfélagið getur framleitt afbrotamenn, segir Guðrún Ögmundsdóttir. Hún segir ekki óraunhæft að borga fórnarlömbum ofbeldis í Breiðavík þrjár milljónir í miskabætur fyrir þjáningar sínar.

Leggst gegn framboði í nafni Framtíðarlandsins
Ómar Ragnarsson einn forsprakka Framtíðarlandsins segist leggjast gegn framboði til alþingiskosninga í nafni Framtíðarlandsins. Það sé ekki ráðlegt að stærstu umhverfissamtök landsins bjóði fram í eigin nafni. Búist er við miklum átökum á fundi Framtíðarlandsins í kvöld þar sem ákveðið verður hvort ráðist verður í framboð fyrir alþingiskosningar.

Forsætisráðherra boðar lækkun skatta á fyrirtæki
Forsætisráðherra boðaði einföldun á skattkerfinu og lækkun skatta á fyrirtæki til að auka samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja á viðskiptaþingi í dag. Formaður viðskiptaráðs segir hvalveiðar Íslendinga geta sett árangur útrásarfyrirtækjanna í uppnám.

Eldur í geymslu á Hótel Höfn
Rétt eftir klukkan fimm í dag varð elds vart í geymslu í kjallara Hótels Hafnar. Brunakerfið lét vita af eldinum en erfiðlega gekk að staðsetja eldinn vegna reyks. Reykkafari var sendur inn til þess að staðsetja hann. Slökkvilið Hafnar er enn að störfum á hótelinu. Einhverjar glæður leynast þar enn og verið er að reykræsta hótelið.

Samfylkingin vill huga að sprotafyrirtækjum
Á blaðamannafundi í dag kynnti Samfylkingin nýja stefnumótun í atvinnumálum. Þær unnu til verðlauna á nýafstöðnu Sprotaþingi Samtaka sprotafyrirtækja og Samtaka iðnaðarins sem haldið var á föstudag. Þar greiddu fundarmenn atkvæði um tillögur stjórnmálaflokkanna og urðu tillögur Samfylkingarinnar í þremur efstu sætunum.

Forsætisráðherra boðar skattabreytingar
Ákveðið hefur verið að leggja af skattlagningu á söluhagnað fyrtækja af hlutabréfum. Geir H. Haarde forsætisráðherra greindi frá þessu á Viðskiptaþingi 2007 í dag.
Ísland í 19. sæti á ímyndarlista
Ísland er í nítjánda sæti á lista þjóða þar sem mældur er styrkur ímyndar þeirra út frá stjórnsýslu, menningu, ferðamennsku, útflutningi og fleiri þáttum. Listinn nefnist Anholt Nation Brands Index, nefndur eftir Simon Anholt sérfræðingi í ímyndarmálum þjóða sem kynnti niðurstöðurnar á Viðskiptaþingi 2007 í dag.

Hagnaður Vinnslustöðvarinnar dregst saman
Vinnslustöðin í Vestmannaeyjum skilaði 335 milljóna króna hagnaði á síðasta ári samanborið við 442 milljónir króna árið áður. Hagnaður fyrirtækisins dróst því saman sem nemur 107 milljónum króna. Þar af nam hagnaðurinn 248 milljónum króna á fjórða ársfjórðungi 2006.

Kaupa sex Airbus-breiðþotur
Flugfélag Arngríms Jóhannssonar og Hafþórs Hafsteinssonar, Avion Aircraft Trading, samdi í dag um smíði sex Airbus-breiðþotna. Þetta er í fyrsta sinn sem íslenskt flugfélag kaupir nýjar Airbus-þotur beint frá verksmiðjunum.
Í gæsluvarðhald eftir Kompás
Hálffimmtugur karlmaður var í héraðsdómi í dag úrskurðaður í gæsluvarðhald í eina viku. Maðurinn er einn af þeim fimm sem fóru í íbúð, sem Kompás hafði tekið á leigu, í þeirri von að hitta þrettán ára stúlku.

Fjármagnstekjufólk greiði til samfélagsins
Skattkerfið þarf að ná til fólks sem hefur fjármagnstekjur en greiðir ekki venjulega skatta, segir Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri grænna. Á þriðja þúsund landsmanna hefur eingöngu fjármagnstekjur og borgar ekkert til sveitarfélaganna.

Húsnæðislán bankanna hækkað fasteignaverð
Vextir á íbúðalánum eru hærri nú en þeir voru fyrir innreið bankanna á húsnæðislánamarkaðinn. Innkoma bankanna var mislukkuð segir sjálfstæður fjármálaráðgjafi.

Varnarliðið skuldar íslenskum fyrirtækjum
Íslensk fyrirtæki kvarta undan því að hafa ekki fengið greitt fyrir vörur hjá Varnarliðinu, um eða yfir hálfu ári eftir að herinn fékk vörurnar. Reikningarnir eru ýmist sendir til höfuðstöðva hersins á Ítalíu eða í Bretlandi.
Samfylkingin vill fresta stóriðjuframkvæmdum
Samfylkingin vill fresta stóriðjufamkvæmdum í Straumsvík og Helguvík. Þetta kom fram í ræðu Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur í umræðu sem fram fór á Alþingi í dag. Umræðan var vegna frumvarps um rammaáætlun um náttúruvernd.