Það fer um mig hrollur þegar ég sé heiftarleg viðbrögð við auglýsingunum okkar. Ég anda djúpt, tel upp að 100 og minni mig á þá óþrjótandi samúð sem ég hef með okkur öllum og þá sérstaklega börnum sem eru að glíma við þögnina, óttann og afneitunina sem ríkir í kringum kynferðislegt ofbeldi á börnum. Blátt áfram er að bera á borð staðreyndir málsins. Það er staðreynd að 93% barna sem verða fyrir kynferðislegu ofbeldi þekkja gerendurna, einstaklinga úr öllum stéttum, gjarnan í hlutverkum sem við hin fullorðnu treystum og í því skjóli skáka gerendur, bæði konur og karlar. Við erum ekki að ásaka neina sérstaka starfsstétt um að beita börn ofbeldi frekar en aðra. Við erum að benda fólki á að í þeim hópum fólks sem vinna með börnum og eru langflestir traustsins vert, leynast oft einstaklingar sem eru að gera slæma hluti en ekki góða. Í stað þess að ráðast á sendiboðann bið ég alla að staldra við og hugsa málið til enda. Ef þú ert einn af þeim fjölmörgu sem starfa með börnum, biðjum við þig að koma til samstarfs við okkur til að tryggja öryggi þeirra. Hvað get ég gert, spyrð þú ef til vill. Þú getur viðurkennt þá erfiðu staðreynd að inni á milli eru einstaklingar sem grafa undan því trausti sem þú hefur áunnið þér í þínu starfi vegna þess að því fylgir traust og vald yfir börnum. Þú getur lært hvað þú átt að gera til að standa undir því trausti sem til þín er borið og hvernig þú getur verið á varðbergi gagnvart þeim sem gera það ekki.