Skoðun

Bærinn er fólkið

Karólína Helga Símonardóttir skrifar

Um samtal, traust og framtíð Hafnarfjarðar

Hafnarfjörður er einstakur bær. Hér mætast saga og framtíð, náttúra og bæjarbragur. Líkt og önnur sveitarfélög stöndum við frammi fyrir krefjandi verkefnum. Íbúar kalla eftir lausnum í húsnæðismálum, bættri þjónustu, ábyrgri fjármálastjórn og skýrri framtíðarsýn um hvernig bæjarfélagið eigi að þróast – fyrir börnin okkar, eldri borgara og alla þar á milli.

Ástæðan fyrir því að ég gaf kost á mér var sú trú að við getum gert betur. Ekki með því að slíta í sundur það sem hefur verið byggt upp, heldur með því að bæta, endurnýja og hlusta betur. Í samtölum mínum við Hafnfirðinga hef ég fundið sterkt ákall um aukið samtals milli kjörinna fulltrúa og íbúa, meiri gagnsæis í ákvarðanatöku og skýrari forgangsröðunar í verkefnum bæjarins.

Í Hafnarfirði eigum við að leggja áherslu á að bærinn sé góður staður til að alast upp í, lifa í og eldast í. Það þýðir að leik- og grunnskólar verði í fremstu röð, að stuðningur við fjölskyldur sé raunverulegur og að eldri borgarar geti notið virðingar og öryggis í sínu nærumhverfi. Það þýðir líka að skipulagsmál séu unnin af festu og framsýni, þar sem tekið er tillit til náttúru, innviða og samfélagslegra áhrifa..

Kosningarnar í maí snúast um bæjarbúa, um ykkur og okkur. Þær snúast um það hvernig við viljum að Hafnarfjörður þróist næstu ár og áratugi. Ég trúi því að með samvinnu, yfirvegun og skýrum gildum getum við tekið betri ákvarðanir fyrir heildina. Pólitík á sveitarstjórnarstigi á fyrst og fremst að snúast um lausnir, ekki skotgrafir.

Næstu vikur og mánuðir mun ég leggja ríka áherslu á samtal við íbúa, félagasamtök, fyrirtæki og starfsfólk bæjarins. Ég vil hlusta, læra og vinna með fólki. Traust byggist ekki á orðum einum saman heldur á vinnubrögðum, heiðarleika og því að standa við það sem lofað er.

Ég kalla eftir samtali við bæjarbúa, við starfsmenn Hafnarfjarðarbæjar og atvinnurekendur í Hafnarfirði.




Skoðun

Sjá meira


×