Innlent

Segir um að ræða al­var­lega að­för að sjálf­stæði for­seta Ís­lands

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Ólafur Ragnar Grímsson er ekki sáttur með tillöguna í hinu nýja frumvarpi.
Ólafur Ragnar Grímsson er ekki sáttur með tillöguna í hinu nýja frumvarpi. Vísir/Anton Brink

Ólafur Ragnar Grímsson fyrrverandi forseti Íslands segir að það yrði alvarleg aðför að að sjálfstæðri stöðu forseta Íslands ef forsætisráðherra verður falið vald yfir vali á forsetaritara, æðsta embættismanni forseta Íslands. Hann segist ekki hafa neina trú á því að Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra ætli sér að breyta um stefnu og efna í aðför að sjálfstæði embættisins.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í umsögn Ólafs Ragnars um frumvarp um breytingar á forsetaembættinu. Frumvarpið felur meðal annars í sér tillögu um ráðningu aðstoðarmanns forseta. Frumvarpinu var dreift á Alþingi í desember en ekki er búið að mæla fyrir því.

Yrði háður vilja og valdi forsætisráðherra

Ólafur Ragnar hefur skilað inn tvennum umsögnum vegna frumvarpsins, einni í desember og annarri nú í janúar. Hann segir í fyrstu umsögn sinni meðal annars að í kynningu á efni frumvarpsins hafi verið lögð áhersla á að það feli í sér ráðningu aðstoðarmanns og breytingu á greiðslum til handhafa. Hann segir að óvænt komi hinsvegar fram að færa eigi forsætisráðherra vald yfir vali á forsetaritara.

„Það vald hefur forsætisráðherra aldrei haft. Í frumvarpinu segir einnig að forsetaritarinn sem skipaður er samkvæmt ftillögu forsætisráðherra „ræður annað starfslið“ og „forsætisráðherra fer einn með aðrar heimildir veitingavaldshafa gagnvart forsetaritara.“ Slíkar breytingar yrðu alvarleg aðför að sjálfstæðri stöðu forseta Íslands. Hann yrði þar með í störfum sínum háður vilja og valdi forsætisráðherra.“

Hann bendir því næst á að þjóðin kjósi forseta í beinni kosningu. Sjálfstæði forsetans gagnvart forsætisráðherra og öðrum ráðherrum hafi í rúm áttatíu ár verið grundvallaratriði í lýðræðisskipan lýðveldisins.

„Það sýna glöggt sögulegir atburðir. Það getur varla verið ætlun stjórnvalda að slík grundvallarbreyting á stöðu forseta Íslands sé hluti frumvarps sem samkvæmt yfirlýsingum á að fjalla um aðstoðarmann og greiðslur til handhafa,“ skrifar Ólafur Ragnar og bætir því við að síðustu í umsögn sinni í desember að það sé hans tillaga að þessi liður falli burt.

Engin dæmi um að forsætisráðherra sækist eftir íhlutun við ráðninguna

Í seinni umsögn sinni sem Ólafur Ragnar sendir forsætisráðuneytinu nú í janúar ítrekar hann þá tillögu að umrætt ákvæði sé fellt burtu. Þá hefur hann fengið greinargerð dr. Kára Hólmars Ragnarssonar og fjölda ljósrita af ksjölum frá fyrri tíð. Ólafur Ragnar segir gögnin staðfesta niðurstöðu hans.

„Gögnin sýna að í áttatíu ára sögu lýðveldisins hefur forsætisráðherra aldrei verið þátttakandi í ráðningu forsetaritara nema árið 2021. Þó var þá einungis um að ræða formlega aðkomu forsætisráðherra því dómnefnd að frumkvæði forseta var aðalgerandinn. Í samtölum er staðfest að þá var ekki ætlun forsætisráðherra að hafa forræði á vali forsetaritara. Aðeins að staðfesta vilja forseta.“

Ólafur Ragnar bendir ennfremur á að í samanlagðri sögu lýðveldisins séu engin dæmi um að forsætisráðherra sækist eftir íhlutun við ráðningu forsetaritara með þeim hætti sem lagður er til í frumvarpinu.

„Engum forsætisráðherra hefur dottið í hug að fara í slíkan leiðangur. Undirritaður hefur enga trú á því að núverandi forsætisráðherra ætli að breyta hér um stefnu og efna í aðför að sjálfstæði forseta Íslands. Enda hefur ráðherrann sagt opinberlega að ætlunin sé eingöngu að breyta handhafalaunum og heimila að ráða aðstoðarmann forseta. Óþarfi er að etja ágætum forsætisráðherra út í átök um sjálfstæði forsetaembættisins sem gætu leitt í miklar ógöngur eins og vikið er að í greinargerð dr. Kára Hólmars Ragnarssonar.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×