Innlent

Er­lendir aðilar reyni að hafa vit fyrir Ís­lendingum

Samúel Karl Ólason skrifar
Arna Lára Jónsdóttir og Hanna Katrín Friðriksson.
Arna Lára Jónsdóttir og Hanna Katrín Friðriksson. Vísir

Stór hluti þeirra umsagna sem bárust um frumvarp um lagareldi barst erlendis frá og virðist hægt að rekja þær til alþjóðlega fyrirtækisins Patagonia. Atvinnuvegaráðherra og þingmenn hafa lýst yfir áhyggjum vegna þessa og segja erlent fyrirtæki reyna að hafa áhrif á íslenska löggjöf.

Hanna Katrín Friðriksson, atvinnuvegaráðherra, ræddi umsagnirnar í Kastljósi í gær en þar sagði hún að rúmlega níu hundruð hefðu verið settar í samráðsgáttina en þar að auki hafi um 2.300 umsagnir borist í tölvupósti.

„Mér finnst umhugsunarefni að upplifa það að bandarískt stórfyrirtæki sé í herferð með fjöldaframleiddar umsagnir til þess að hafa áhrif á löggjöf hér á landi og það nær langt út fyrir svið þessa tiltekna máls. Við gætum sett þetta í samhengi við lagasetningu hér á landi, varðandi umhverfis- eða varnarmál,“ sagði Hanna Katrín.

Sjá einnig: Gríðar­leg and­staða við lagar­eldis­drög Hönnu Katrínar

Arna Lára Jónsdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi, sló á svipaða strengi á þingi í dag. Þar sagðist hún vilja vekja athygli á því hve margar umsagnir um frumvarpið hefðu borist erlendis frá. Margar þeirra væru tví- og þríteknar og áætla mætti að það ætti við um sjötíu prósent umsagna.

Hún sagði að inn á milli væru margar og gagnlegar athugasemdir um frumvarpið.

„Eitt er þó athyglisvert sem rekja má aukinn fjölda umsókna til; auglýsingaherferðar Verndarsjóðs villtra laxastofna, sem er fjármagnaður af erlendum aðilum. Auglýsingaherferðin sem beinist gegn lagareldisfrumvarpi stjórnvalda er af slíku afli að ég man ekki eftir öðru eins. Það er útvarp, sjónvarp, netmiðlar, auglýsingaskilti, samfélagsmiðlar og allar leiðir farnar,“ sagði Arna Lára.

Hún benti einnig á Patagonia og sagði fyrirtækið eitt af styrktaraðilum verndarsjóðsins. Hún sagði forsvarsmenn fyrirtækisins hafa leiðbeint viðskiptavinum sínum um hvernig þeir ættu að skila inn umsögnum og að hægt væri að fá þær skrifaðar með hjálp gervigreindar á sérstökum vef.

„Þetta eru óeðlileg erlend afskipti af íslenskri löggjöf. Hér eru erlendir aðilar að reyna að hafa vit fyrir okkur Íslendingum í því hvernig við búum vaxandi atvinnugrein samkeppnishæf skilyrði. Sama og þegið. Fjölmargar umsagnir, til að mynda frá innlendum veiðifélögum, standa fyrir sínu.“

Arna Lára sagði þörf á því að skoða ákveðna þætti frumvarpsins gaumgæfilega en því væri ætlað að færa núverandi löggjöf til betra horfs og sporna gegn neikvæðum áhrifum á lífríki en í senn auka verðmætasköpun.

„Fiskeldi er ein af grunnstoðunum í atvinnustefnu stjórnvalda. Útflutningsverðmæti laxafurða voru tæpir 50 milljarðar á síðasta ári. Það starfa um 800 manns í greininni sem hefur haft jákvæð áhrif á byggðaþróun, bæði á Vestfjörðum og Austfjörðum. Framtíðarþróun og verðmætasköpun í fiskeldi verður að byggja á skýrum kröfum um sjálfbæra nýtingu með áherslu á traust eftirlit, vöktun og rannsóknir. Þetta er lykilatriði svo fiskeldi fái þrifist í sátt við náttúruna og villta laxastofna.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×