Fótbolti

Sagðir borga 200 milljónir fyrir Kristal Mána

Sindri Sverrisson skrifar
Freyr Alexandersson er að fá landa sinn í herbúðir Brann og þar með verða íslensku leikmennirnir þrír talsins hjá félaginu.
Freyr Alexandersson er að fá landa sinn í herbúðir Brann og þar með verða íslensku leikmennirnir þrír talsins hjá félaginu. Samsett/Getty/KSÍ

Kristall Máni Ingason er að verða lærisveinn Freys Alexanderssonar hjá norska knattspyrnufélaginu Brann og er mættur til móts við liðið í æfingaferð á Spáni.

Norski staðarmiðillinn Bergens Tidende greindi frá þessu í gær og birti mynd af Kristali mættum til Marbella að hitta nýja liðsfélaga.

Þó að Brann eigi eftir að staðfesta tíðindi er ljóst að Kristall verður fjórði Íslendingurinn hjá félaginu, á eftir þjálfaranum Frey Alexanderssyni og þeim Sævari Atla Magnússyni og Eggerti Aroni Guðmundssyni.

Margfalt dýrari en þegar hann kom til Danmerkur

Danski miðillinn Tipsbladet hefur eftir heimildum að samningur Kristals sé til fjögurra ára. Hann hafi einnig verið í sigti félaga í Belgíu, Hollandi og Þýskalandi, eftir magnaða frammistöðu með Sönderjyske í dönsku úrvalsdeildinni fyrir jól. Hann skoraði til að mynda þrjú mörk og lagði upp tvö í síðustu fimm leikjunum fyrir jólafríið.

Tipsbladet segir jafnframt að Brann borgi 1,4 milljón evra fyrir þennan 24 ára gamla leikmann, sem jafngildir rúmlega 200 milljónum íslenskra króna. Það er jafnframt margfalt meira en Sönderjyske borgaði til að fá Kristal frá Rosenborg árið 2023, þegar félagið á að hafa greitt aðeins 100.000 evrur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×