Innlent

Ungir Sjálf­stæðis­menn fengu á­fengi í ferð með Vil­hjálmi og fóru svo á kjör­stað

Eiður Þór Árnason skrifar
Vilhjálmur Árnason, þingmaður og frambjóðandi í leiðtogaprófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjanesbæ, ásamt ungum Sjálfstæðismönnum í Helguvík í gær.
Vilhjálmur Árnason, þingmaður og frambjóðandi í leiðtogaprófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjanesbæ, ásamt ungum Sjálfstæðismönnum í Helguvík í gær. Logi Þór Ágústsson

Farið var með ungmenni á kjörstað eftir vísindaferð í gær á vegum Vilhjálms Árnasonar, ritara Sjálfstæðisflokksins og frambjóðanda í Reykjanesbæ, þar sem boðið var upp á áfengi. Skipuleggjandi segir fólk hafa verið með lögaldur „eftir [sinni] bestu vitund.“

Logi Þór Ágústsson, formaður Heimis - félags ungra Sjálfstæðismanna í Reykjanesbæ, og Hermann Borgar Jakobsson varaformaður, segjast bera ábyrgð á ferðinni. Þeir eru nánir stuðningsmenn Vilhjálms sem er jafnframt þingmaður Sjálfstæðisflokksins.

Hópurinn lagði af stað frá kosningamiðstöð Vilhjálms en í vísindaferðinni í gær voru fyrirtæki og uppbyggingarsvæði heimsótt í Helguvík. Logi segir að ferðin hafi verið haldin af sér og Hermanni „fyrir hann Vilhjálm“ en í kynningarefni var skýrt tekið fram að Vilhjálmur væri að bjóða ungum Sjálfstæðismönnum í vísindaferð. Sömuleiðis er Vilhjálmur skráður skipuleggjandi.

Skjáskot af Facebook-viðburðinum sem Viljálmur var einnig skráður fyrir.

Logi segir áfengið í ferðinni hafa verið í boði hans og varaformannsins og fólkið sem neytti veiganna „með lögaldur eftir minni bestu vitund.“ Samkvæmt lögum Sambands ungra Sjálfstæðismanna (SUS) er ungmennum niður í fimmtán ára aldur heimilt að skrá sig í undirfélög á borð við Heimi. 

Vilhjálmur Árnason hefur ekki svarað fyrirspurn fréttastofu um málið.

Mikill fjöldi lagði leið sína í Helguvík ásamt Vilhjálmi sem sést hér fremst.Logi Þór Ágústsson

Gott að virkja ungt fólk

Logi segir að 52 ungir Sjálfstæðismenn hafi mætt í ferðina og rúta lagt af stað frá kosningamiðstöð Vilhjálms. Eftir heimsóknina í Helguvík hafi rúta komið við í Grófinni í Reykjanesbæ þar sem nú er hægt að greiða atkvæði í leiðtogaprófkjörinu í Reykjanesbæ en Vilhjálmur er þar einn þriggja frambjóðenda.

„Á leiðinni til baka úr Helguvík vildu nokkrir nýta tækifærið og kjósa utankjörfundar þar sem það var í leiðinni. Rúmlega 10 manns af þeim 50 gerðu það,“ segir Logi. „Það finnst mér frábært enda nauðsynlegt fyrir Sjálfstæðisflokkinn að virkja ungt fólk.“

Skýtur á forvera sinn

Vísir setti sig upphaflega í samband við Guðna Ívar Guðmundsson sem er skráður formaður Heimis á vef SUS en sá upplýsti fréttamann um að áðurnefndur Logi væri nú búinn að taka við formennsku. 

Þegar fréttamaður hringdi í Loga til að spyrja hann um ferðina í gær vildi hann lítið segja í fyrstu og óskaði eftir skriflegri fyrirspurn. Í stað þess að svara fréttamanni með beinum hætti birti hann í kjölfarið færslu um málið á Facebook-síðu sinni þar sem hann sakaði ónefndan aðila í kosningastjórn annars frambjóðanda um að siga fréttamanni á sig.

„Væntanlega í þeim tilgangi að gera [ferðina] tortryggilega og ná höggi á Vilhjálm Árnason,“ ritar Logi. Þar er að öllum líkindum vísað til áðurnefnds Guðna sem fréttamaður minntist á við Loga. Sjálfur hefur Guðni stigið fram í athugasemd undir Facebook-færslu Loga. 

„Til að það sé alveg ljóst þá kemur þetta ekki frá framboði Ásgeirs eins og mér heyrist þú vera skrifa, hér eru skilaboð sem mér bárust í dag af fyrrabragði,“ skrifar Guðni og vísar til skjáskots af samskiptum við fréttamann.

Þess ber að geta að fréttamaður upplýsti Guðna ekki um efni erindisins áður en hann óskaði eftir því að komast í samband við sitjandi formann félags ungra Sjálfstæðismanna í Reykjanesbæ. Logi hefur verið upplýstur um þetta en hann hefur ekki leiðrétt yfirlýsingu sína. 

Ungt fólk skundaði um uppbyggingarsvæðið í Helguvík í gær. Sumt þeirra var með áfengi við hönd. Logi Þór Ágústsson

„Ég mun ekki fóðra andstæðinga Sjálfstæðisflokksins eða stuðningsmenn annarra framboða – sem leggjast svona lágt – með efni með því að tjá mig frekar. Ég vona að aðrir frambjóðendur hafi ekki með beinum hætti komið að þessari ömurlegu árás á unga fólkið sem hefur áhuga á því að taka þátt í starfinu,“ segir Logi í Facebook-færslu sinni.

Hann telur að um hafi verið að ræða eina fjölmennustu vísindaferð sem haldin hafi verið af ungu fólki í Reykjanesbæ.

Færslan sem formaður Heimis birti eftir að hann fékk fyrirspurn frá fréttamanni. Umræddur maður í kosningastjórn mótframbjóðanda Vilhjálms var skráður formaður félagsins.

Fréttin hefur verið uppfærð með upplýsingum um Facebook-viðburðinn og til að áretta að Logi hafi ekki tilgreint nafn Guðna í færslu sinni. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×