Erlent

Vél Trump snúið við en ræðan enn á dag­skrá

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Margir bíða eftir ræðu Trump á World Economic Forum í Davos í dag.
Margir bíða eftir ræðu Trump á World Economic Forum í Davos í dag. Getty/Anna Moneymaker

Flugvél forseta Bandaríkjanna, Air Force One, var snúið við skömmu eftir flugtak í nótt eftir „lítilsháttar rafmagnsbilun“. Vélin var á leið til Davos í Sviss með Donald Trump innanborðs en hann skipti um vél skömmu eftir lendingu og engar fregnir hafa borist af því að töfin muni hafa áhrif á dagskrá World Economic Forum í dag.

Blaðamaður sem var um borð í vélinni sagði að ljósin hefðu flöktað í fjölmiðlarýminu í smá stund eftir að vélin var komin í loftið.

Tvær vélar eru notaðar til að flytja forsetann um þessar mundir. Unnið er að því að taka þriðju vélina í gegn og gera hana nothæfa en sú er splunkuný og var gjöf til Trump frá Katar.

Bandaríkjaforseti mun ávarpa ráðstefnugesti í Davos klukkan 13.30 að íslenskum tíma. Áður munu fara fram umræður um efnahagslega getu Rússa til að halda áfram stríðsrekstrinum í Úkraínu og um varnir Evrópu. Þá mun Scott Bessent, fjármálaráðherra Bandaríkjanna, hefja daginn á blaðamannafundi um alþjóðleg viðskipti klukkan 7.00.

Trump hefur sjálfur sagt frá því að hann búist við því að eiga marga fundi um Grænland í Davos en leiðtogar Evrópu og Kanada hafa lýst því yfir í vikunni að þeir hyggist ekki víkja frá stuðningi sínum við Grænlendinga og Dani.

Gavin Newsom, ríkisstjóri Kaliforníu, sem hefur verið iðinn við að „trölla“ Trump á samfélagsmiðlum, hefur einnig tjáð sig um málið og segir leiðtogana þurfa að stappa í sig stálinu og mæta Trump af  hörku. 

„Það er ekki hægt að semja við Donald Trump. Hann er grameðla; annað hvort makar þú þig með honum eða hann étur þig.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×