Innlent

Hófu niður­rif á fé­lags­heimilinu í leyfis­leysi: „Skaðinn er skeður“

Agnar Már Másson skrifar
„Skaðinn er skeður,“ segir varabæjarfulltrúi í Kópavogi en verktakar hófu niðurrif á húsnæði gamla félagsheimilisins við Fannborg 2 í leyfisleysi.
„Skaðinn er skeður,“ segir varabæjarfulltrúi í Kópavogi en verktakar hófu niðurrif á húsnæði gamla félagsheimilisins við Fannborg 2 í leyfisleysi. Vísir/Lýður

Byggingafulltrúi Kópavogsbæjar stöðvaði í dag verktaka sem höfðu hafist handa við niðurrif á húsnæði þar sem félagsheimili Kópavogs var áður, án þess að hafa tilskilið leyfi. Varabæjarfulltrúi segir að framkvæmdin öll sé „eitt allsherjarklúður af hálfu Kópavogsbæjar.“

Hákon Gunnarsson, varabæjarfulltrúi Samfylkingarinnar í Kópavogi og íbúi við Fannborg, segir frá þessu í samtali við fréttastofu. Hann útskýrir að fyrir tæpum átta árum hafi Kópavogsbær selt eignir sínar við Fannborg 2, 4 og 6, þar sem gamla félagsheimilið hafi verið til húsa, til félagsins Árkórs.

Lóðarhafinn hafi svo lagt fram deiliskipulag sem hafi síðan verið samþykkt í bæjarstjórn með naumum meirihluta.

Framkvæmdir við félagsheimili Kópavogs Fannborg 2Vísir/Lýður

Hákon segir að illa hafi gengið að koma framkvæmdum af stað, meðal annars vegna ósættis meðal íbúa og nágranna á svæðinu og það hafi tafist von úr viti að gefa út byggingarleyfi.

„Það er ekki enn komið lögformlegt niðurrifsleyfi, en það er komið einhvers konar framkvæmdaleyfi til þess að undirbúa niðurrif á þessari byggingu,“ útskýrir varaborgarfulltrúinn. 

Þannig hafi verktakar hafist handa í vikunni við að rífa innan úr byggingunum og tæma þær, þó enn lægi ekki heimild fyrir niðurrifi á húsinu sjálfu. 

„En í dag hefja þeir niðurrif,“ segir varabæjarfulltrúinn. 

Byggingafulltrúi hafi þá komið á staðinn og stöðvað niðurrifið vegna þess að ekki væri komið leyfi. 

„En skaðinn er skeður.“

Hákon segir að töfin á framkvæmdunum hafi valdið gríðarlegu fjárhagslegu tjóni fyrir bæinn. „Og reyndar er það svo — ég sit í skipulagsráði þannig að ég þekki þetta mál vel og sömuleiðis er ég íbúi þarna — að það er mikil ósátt meðal Kópavogsbúa með þessa framkvæmd,“ meinar Hákon.

Hann segir að bæjaryfirvöld hafi afhent skipulagsvald á einu verðmætasta svæði bæjarins gagnrýnislaust til verktaka.

„Málið er bara eitt allsherjarklúður af hálfu Kópavogsbæjar.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×