Erlent

Tóku enn eitt skipið

Samúel Karl Ólason skrifar
Bandarískir landgönguliðar um borð í olíuflutningaskipinu Veronica í morgun.
Bandarískir landgönguliðar um borð í olíuflutningaskipinu Veronica í morgun. Southcom

Bandarískir landgönguliðar og sjóliðar í Strandgæslu Bandaríkjanna gerðu í morgun áhlaup um borð í olíuflutningaskip. Þetta er í sjötta skipti sem vitað er til þess að Bandaríkjamenn taki yfir stjórn olíuflutningaskips sem bendlað hefur verið við Venesúela.

Bandaríkjamenn hafa sett Venesúela í herkví og vilja nota hana til að stýra olíusölu ríkisstjórnar landsins og þvinga þannig ríkisstjórnina til samvinnu.

Maria Corina Machado, leiðtogi stjórnarandstöðunnar í Venesúela, mun fara á fund Donalds Trump, forseta Bandaríkjanna, í Hvíta húsinu í dag.

Sjá einnig: Ætlar að taka við nóbelnum frá Machado

Áhlaupið var gert af flugmóðurskipinu USS Gerald R. Ford, sem er á Karíbahafinu, og tóku Bandaríkjamenn stjórn á olíuflutningaskipinu Veronica.

Yfirstjórn herafla Bandaríkjanna í Suður-Ameríku deildi í dag myndbandi af áhlaupinu en þar segir að eina olían sem muni yfirgefa Venesúela verði flutt þaðan með samþykki Bandaríkjamanna.

Ekki liggur fyrir hvar á umráðasvæði Southcom áhlaupið var gert. Engan mun hafa sakað.

Engin olía var um borð í Veronicu þegar áhlaupið var gert. Síðast var vitað af skipinu í höfn í Venesúela þann 3. janúar. Sérfræðinagar TangerTrackers segja að skipið hafi að minnsta kosti tíu sinnum verið notað til að flytja olíu frá Íran, þvert á viðskiptaþvinganir.

Skipið var eitt af sextán sem reynt var að koma gegnum herkví Bandaríkjamanna.

Sjá einnig: Reyna að koma sex­tán skipum gegnum her­kví

Wall Street Journal segir að herkvíin hafi mikil áhrif á olíuiðnað Venesúela. Olíu sé nú einungis dælt um borð í skip sem flytji olíu til vinnslu í Bandaríkjunum eða annarsstaðar í Venesúela.

Skipinu var siglt undir rússneska fánanum. Nafninu Veronica var breytt í Galileo í síðustu viku og var rússneski fáninn þá dreginn að húni. Skráningu þó nokkurra skipa úr skuggaflotanum hefur verið breytt að undanförnu svo þau sé skráð í Rússlandi. Markmiðið virðist vera að komast hjá því að Bandaríkjamenn geri áhlaup um borð.

Umdeildur skuggafloti

Skipin sem hafa verið stöðvuð tilheyra flest, ef ekki öll, svokölluðum „skuggaflota“ Rússa. Hann nota ríki eins og Rússland, Íran og Venesúela til að komast hjá refsiaðgerðum og viðskiptaþvingunum.

Skuggaflotinn svokallaði er skipaður hundruðum skipa sem eru í flestum tilfellum gömul og í slæmu ástandi. Þeim er reglulega siglt án þess að þau sendi út staðsetningarupplýsingar eða sendar eru út falskar upplýsingar um staðsetningu þeirra.

Sérfræðingar hafa áætlað að skuggaflotinn hafi í fyrra flutt um 3,7 milljarða tunna af olíu, sem samsvarar um sex til sjö prósentum af heildarmarkaði ársins.

Uppfært: Maria Corina Machado, leiðtogi stjórnarandstöðunnar í Venesúela en ekki nýr forseti Venesúela, eins og stóð upprunalega í greininni.


Tengdar fréttir

Þingmenn sem Trump sagði heimska lúffuðu

Repúblikanar í öldungadeild Bandaríkjaþings felldu í gær frumvarp sem hefði dregið úr völdum Donalds Trump, forseta, til að gera frekari árásir á Venesúela. Það er eftir að tveir þingmenn flokksins sem höfðu stutt frumvarpið lúffuðu undan þrýstingi frá Hvíta húsinu.

Búa sig undir áhlaup um borð í skuggaskip

Yfirvöld í Bretlandi eru sögð undirbúa það að senda sérsveitir um borð í olíuflutningaskip og önnur skip sem tilheyra svokölluðum „skuggaflota“ Rússa. Ráðamenn munu hafa fundið lög sem hægt sé að nota til að leggja hald á skipin, sem ríki eins og Rússland, Íran og Venesúela hafa notað til að komast hjá viðskiptaþvingunum.

Trump ósáttur við orð olíu­for­stjórans og vill úti­loka hann

Donald Trump Bandaríkjaforseti „hallast að því“ að útiloka bandaríska olíufyrirtækið ExxonMobil frá starfsemi í Venesúela. Hann greindi frá þessu í gær eftir að forstjóri fyrirtækisins lýsti yfir efasemdum um arðvænleika fjárfestinga í landinu eftir að Nicolás Maduro forseta var steypt af stóli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×