Skoðun

Um siðfræðingsvandamálið

Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir skrifar

Ábyrgð liggur EKKI í orðaskaki heldur í gjörðum. Sama gildir um vald.

Á endanum ræður almenningur.

Fjölmiðlar lifa á athygli, trausti og stuðningi lesenda og auglýsenda. Þegar miðill birtir eða ver niðrandi ummæli um konur eða karla, þá er það meðvitað val — og val hefur afleiðingar. Þegar aðrir fjölmiðlar endurbirta eða verja sömu niðrandi ummæli gildir það sama.

Enginn er skuldbundinn til að styðja þá fjölmiðla sem gera lítilsvirðingu að afþreyingu. Lesendur geta dregið mörk með því að hafna slíku efni, hætta áskriftum, beina viðskiptum sínum til annarra, en auglýsenda slíks fjölmiðils og beina heldur athygli sinni og stuðningi frekar að miðlum sem sýna virðingu og fagmennsku.

Þetta snýst ekki um að þagga niður í fólki, heldur um að VELJA af ábyrgð hvað við styðjum.

Umræða án virðingar er ekki frjáls umræða — hún er merki um ábyrgðarleysi.

Ef við viljum betri opinbera umræðu, þá verðum við að umbuna þeim sem standa sig betur og hafna þeim sem gera það ekki.

Við ölum siðfræðinginn ekki upp með vandlætingu og hneykslun einni saman. Það verkefni átti að eiga sér stað í foreldrahúsum — en þar virðist eitthvað hafa brugðist. Þegar grunn-uppeldi skortir, lendir ábyrgðin síðar annars staðar og í þessu tilfelli hjá konum.

Í reynd hafa svokölluð „siðfræðingsvandamál“ verið lögð á herðar góðhjartaðra og þolinmóðra kvenna frá örófi alda. Þessi vandamál velkjast á milli hugrakkra og bjartsýnna kvenna, sem taka við hver af annarri í þeirri trú að þeim takist það sem öðrum tókst ekki.

Þær leggja sig allar fram um að draga úr skaða, leiðrétta hegðun og halda utan um menn sem aldrei lærðu mörkin. Þetta er gert í kyrrþey, af ábyrgð og samvisku — en án þess að ábyrgðin sé þeirra að bera.

Það er hvorki sanngjarnt né sjálfsagt.

Umrætt siðfræðingsvandamál er samt ekki vandamál kvenna. Þetta er afleiðing uppeldisbrests — og ábyrgð samfélagsins að bregðast við honum. Þar bera fjölmiðlar sérstaka skyldu, því þeir velja hverjir fá skjáinn og hverjir vaða þar á súðum.

Allir karlmenn á Íslandi ættu að spyrja sig einnar einfaldar spurningar:

Mynduð þið líða slík ummæli um eigin móður?

Svarið er augljóst.

Sýnið í verki að ykkur þyki vænt um konur.

Strákar — í alvöru.

Í raun er það almenn samstaða — yfirveguð og skýr — sem ein getur hjálpað til við að leysa þetta sérstaka siðfræðingsvandamál.

Engin ein kona, sama hversu sterk eða hæf hún er, á að bera þessa byrði.

Aðgát. Siðfræðingurinn er nýlega fráskilinn.

Höfundur er leikkona.




Skoðun

Skoðun

32 dagar

Magnea Gná Jóhannsdóttir skrifar

Sjá meira


×