Sport

Ólympíuhetja dó í snjó­flóði

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ueli Kestenholz er hér lengst til hægri á verðlaunapallinum á Vetrarólympíuleikunum í Naganó 1998.
Ueli Kestenholz er hér lengst til hægri á verðlaunapallinum á Vetrarólympíuleikunum í Naganó 1998. Getty/Mark Sandten

Svissneska ólympíuhetjan Ueli Kestenholz lést í snjóflóði en svissneska skíðasambandið greindi frá því.

Kestenholz var fimmtugur en hann vann brons á snjóbretti á Ólympíuleikunum í Nagano árið 1998.

Slysið varð í kantónunni Valais, að því er Blick greinir frá.

Lögreglan í kantónunni hafði áður greint frá því að snjóbrettamaður hefði lent í snjóflóði á sunnudag, grafist undir snjónum og verið fluttur með þyrlu á sjúkrahúsið í Sion.

„Við vottum aðstandendum og nánustu Uelis okkar dýpstu samúð,“ segir Peter Barandun, forseti svissneska skíðasambandsins, í yfirlýsingu.

Kestenholz var á snjóbretti með vini sínum sem var á skíðum á sunnudag í Lötschen-dal. Snjóflóðið hófst í 2.400 metra hæð af óþekktum ástæðum, að því er lögreglan í Valais greindi frá í yfirlýsingu.

Kestenholz festist í snjónum og vinur hans kom honum til hjálpar áður en hann var fluttur með þyrlu á sjúkrahús, fyrst til Visp og síðan til Sion sem er nálægt Crans-Montana.

Kestenholz varð eins og áður sagði í þriðja sæti í stórsvigi á snjóbretti á Ólympíuleikunum í Nagano árið 1998. Það var í fyrsta sinn sem keppt var í greininni og hún varð að fréttaefni leikanna þegar kanadíski gullverðlaunahafinn Ross Rebagliati barðist fyrir því að halda titli sínum eftir að hafa fallið á lyfjaprófi eftir að kannabis fannst í sýni hans.

Kestenholz hafði einnig unnið silfur og brons á heimsmeistaramótum en hann tók þátt í tveimur Vetrarólympíuleikum til viðbótar, varð tvívegis meistari í snjóbrettakrossi á X-Games og hélt áfram atvinnumannaferli sínum í jaðaríþróttum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×