Innlent

„Það er bara ömur­legt að horfa upp á þetta“

Eiður Þór Árnason skrifar
Guðjón Davíðsson er stjórnarformaður True North.
Guðjón Davíðsson er stjórnarformaður True North. Vísir/Viktor Freyr - Aðsend/True North

Óbætan­lega sögu­lega muni mátti finna í geymslu kvik­mynda­fram­leiðslu­fyrir­tækisins True North sem varð al­elda í Gufunesi í dag. Telur slökkvilið að allt sem í henni mátti finna sé ónýtt. 

„Það er bara ömurlegt að horfa upp á þetta. Því þetta eru leikmunir sem við höfum verið að safna í gegnum árin þannig að þetta er verulegt tjón fyrir okkur. Það er ekkert tjón á mannskap eða neitt svoleiðis sem betur fer,“ segir Guðjón Davíðsson, stjórnarformaður True North, í samtali við fréttastofu. 

Hann voni að eldurinn teygi sig ekki í aðrar byggingar. Slökkvilið reisti sérstakar varnir þegar það kom fyrst á vettvang til að draga úr hættunni á slíkri útbreiðslu og virðast þær hafa haldið. 

„Þetta er dálítið af munum úr bíómyndum og verkefnum sem við höfum verið með sem er ekki hægt að bæta. Því miður, það er það vonda við þetta.“ segir Guðjón. 

Stjórnendur True North hafi ekki komist í að kynna sér stöðu tryggingamála fyrirtækisins í dag og staðan verði tekin á morgun og á næstu vikum.

Mikið af verðmætum

Einar Þór Magnússon, fjármálastjóri hjá True North, tekur í sama streng og segir fyrirtækið hafa leigt skemmuna í Gufunesi af Reykjavíkurborg. Eldsvoðinn sé áfall og mikið af leikmunum í skemmunni sem hafi verið notaðir í verkefnum True North á síðustu árum. 

True North er eitt stærsta framleiðslufyrirtækið hér á landi á sviði kvikmynda og sjónvarpsefnis og hefur því komið að ófáum erlendum og innlendum verkefnum í gegnum tíðina. Einar segir að um sé að ræða mikið af verðmætum og leikmuni með sögu.

Hægt er að fylgjast með framvindu málsins og nýjustu fregnum í Vaktinni á Vísi


Tengdar fréttir

Gengið ágætlega að slökkva og kalla fólk til baka

Ágætlega gengur að slökkva eldinn sem kviknaði í skemmu sem framleiðslufyrirtækið True North leigir í Gufunesi í Reykjavík, að sögn slökkviliðs. Altjón sé á húsinu og öllu því sem í því var.

Stórbruni í Gufunesi

Mikill eldsvoði kviknaði í Gufunesi í Reykjavík og sást reykur víða um höfuðborgarsvæðið. Slökkviliðið hefur náð tökum á eldinum. Stjórnarformaður True North segir að mikið tjón hafi orðið á eignum framleiðslufyrirtækisins en TrueNorth leigir skemmuna af Reykjavíkurborg. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×