Skoðun

Ís­land á kross­götum

Jón Pétur Zimsen skrifar

Í umræðunni um áhuga Bandaríkjamanna á Grænlandi hefur ráðamönnum hvaðanæva að verið tíðrætt um nauðsyn og rétt þjóða til að verja lýðræðið, menningu, tungu og gildi sín. Réttur þjóða til að standa vörð um það sem mótar samfélag þeirra er í þessu samhengi talinn ótvíræður en svo gjarnan dregin í efa á öðrum sviðum samfélagsumræðunnar.

Undanfarna tvo áratugi hefur straumur hælisleitenda legið til Evrópu, bæði vegna stríðs og efnahagslegra aðstæðna í heimalandi þeirra. Bættur efnahagur og alþjóðleg flutningskerfi hafa gert mörgum kleift að leggja land undir fót og greiða fyrir ferð til Evrópu, samhliða hefur jafnframt orðið til umfangsmikill iðnaður í kringum fólksflutninga.

Í upphafi opnaði Evrópa landamæri sín að stórum hluta og ríki á borð við Þýskaland og Svíþjóð lýstu yfir vilja til að taka við miklum fjölda fólks. Á skömmum tíma varð þó ljóst að verkefnið var mun flóknara og erfiðara en gert var ráð fyrir og mörg ríki gripu til þess ráðs að herða reglur og jafnvel loka landamærum sínum. Fjöldi þeirra sem vildu setjast að í vestrænum ríkjum reyndist margfalt meiri en samfélögin réðu við án verulegra áhrifa á innviði og samfélagsgerð.

Í upphafi voru til að mynda bæði Angela Merkel og Nicolas Sarkozy, æðstu ráðamenn Þýskalands og Frakklands, jákvæð gagnvart fjölmenningarstefnu. Þegar í ljós komu margvísleg vandamál í sambúð hluta hælisleitenda og innfæddra breyttist orðræða þeirra aftur á móti hratt.

Árið 2010 sagði Merkel t.a.m. að hugmyndin um að fólk úr ólíkum menningarheimum gæti búið hlið við hlið án sameiginlegra viðmiða hefði ekki gengið upp. Hælisleitendur þyrftu að leggja meira af mörkum til að aðlagast þýsku samfélagi, meðal annars með því að læra tungumálið. Sarkozy sagði árið 2011 að fjölmenning hefði mistekist í Frakklandi, að of mikil áhersla hefði verið lögð á að varðveita menningarlega sérstöðu hælisleitenda og of lítil áhersla hefði verið lögð á sameiginleg gildi frönsku þjóðarinnar. Reynsla þessara ríkja af móttöku flóttafólks á umliðnum árum hefur vafalaust styrkt bæði Merkel og Sarkozy í afstöðu sinni.

Leiðtogar margra Evrópuríkja hafa áttað sig á því að það að blanda saman mjög ólíkum menningar-, pólitískum og trúarlegum samfélögum er erfitt, kostnaðarsamt og tímafrekt ef það er yfirhöfuð mögulegt án alvarlegrar samfélagslegrar spennu. Þegar grunnþættir samfélaga eru mjög ólíkir, svo sem saga, lýðræði, menning, tunga og gildi, þarf skýra stefnu og raunverulegar kröfur til að hælisleitendur geti aðlagast innfæddum, sérstaklega þegar fjöldinn er mikill og hlutfallslega margir þeirra með mikla áfallasögu.

Í mörgum upprunaríkjum hælisleitenda eru mannréttindi, jafnrétti kynja og minnihlutahópa og réttarríkið ekki virt með sama hætti og á Vesturlöndum. Þetta eru staðreyndir sem ekki er hægt að horfa fram hjá þegar hælisleitendur koma að samfélögum sem byggja á allt öðrum gildum. Þá er stærsti hluti hælisleitenda ungir karlmenn en þeir eru almennt útsettari en aðrir fyrir andfélagslegri hegðun og ofbeldi og því hlutfallslega meiri erfiðleikar sem fylgja flutningi þeirra en annarra. Þetta er lýðfræðilegt mynstur sem er vel þekkt í rannsóknum á aldri, kyni og áhættuhegðun og felur hvorki í sér alhæfingu um einstaklinga né siðferðisdóm.

Ísland er lítið samfélag með fámenna tungu og takmarkaða innviði. Þótt ástandið hér sé ekki sambærilegt því sem sést hefur annars staðar í Evrópu eru fordæmin til staðar og gefa tilefni til varfærni.

Viðvörunarbjöllur hringja ekki vegna ótta, heldur vegna reynslu. Í þessum málaflokki verðum við að þora að ræða Ísland framtíðarinnar; hvaða gildi viljum við verja, hvernig viljum við að samfélagið þróist og hvernig tryggjum við að íslensk tunga og menning haldi áfram að lifa?

Þetta eru spurningar sem okkur ber skylda til að svara. Margar þjóðir forðuðust þær of lengi. Ég veit að við höfum bæði tækifæri og hugrekki til að gera betur.

Höfundur er þingmaður Sjálfstæðisflokksins. 




Skoðun

Sjá meira


×