Skoðun

Ég vil breytingar

Kristín Soffía Jónsdóttir skrifar

Ég var borgarfulltrúi Samfylkingarinnar og tók þátt í því að móta stefnuna sem borgin hefur þróast eftir. Ég var í hópnum sem gerði nýtt aðalskipulag fyrir Reykjavík árið 2014 og mér finnst rétt stefna hafa verið tekin. En núna vil ég gera breytingar og ég vil að Pétur Marteinsson leiði þær breytingar. Pétur er alvöru urbanisti, áhugamaður um borgina og hefur þekkingu og reynslu til að tryggja að hún þróist í rétta átt.

Við Samfylkingarfólk þurfum oddvita sem sér skýrt stóru myndina og getur horft til framtíðar. Það hefur mjög margt gott gerst síðustu árin en það hefur líka slatti klikkað. Aðalskipulagið er gott en það er ekki fullkomið og það hefur reynslan sýnt okkur og þá þarf að hafa hugrekki til að breyta. Það þarf að draga úr hæðum húsa og byggingarmagni á þéttingarreitum. Það þarf að greina betur áhrif uppbyggingar á innviði hverfanna og það þarf að tryggja að innviðir fylgi uppbyggingu strax.

Pétur hefur jákvæð áhrif á allt og alla í kringum sig og hefur einstakt lag á að láta hluti blómstra. Hann er öflugur fyrirliði með sósíaldemókratískt hjarta og skýra framtíðarsýn. Pétur veit hvaða gæði fylgja því að búa í vel skipulagðri borg sem virkar. Samfylkingin hefur stýrt borginni lengi og gert margt vel. Sú stefna sem hefur verið mótuð er rétt en það þarf að slípa hana til og semja frið. Sumir segja að nýir vendir sópi best. Ég segi að nýtt fólk brosi mest og fyrir mér skiptir það mestu máli. Að ára borgarinnar og borgarstjórnar sé jákvæð. Að það frábæra fólk sem vinnur í borginni upplifi traust og vinnufrið og að borgarbúar upplifi að borgarstjórn vinni fyrir þau öll af stolti, heilindum og sannri gleði.

Höfundur er fyrrverandi borgarfulltrúi Samfylkingarinnar




Skoðun

Sjá meira


×