Menning

Ólafur Jóhann er konungur bóksölunnar 2025

Jakob Bjarnar skrifar
Ólafur Jóhann Ólafsson hefur lengi ógnað konungi bóksölunnar, Arnaldi Indriðasyni, og á síðasta ári hafði hann loks erindi sem erfiði. Í öðru sæti er svo Ævar Þór Benediktsson og má vel við una. Ef Skólastjóri hans hefði verið fáanleg undir lokin er aldrei að vita hvernig hefði farið.
Ólafur Jóhann Ólafsson hefur lengi ógnað konungi bóksölunnar, Arnaldi Indriðasyni, og á síðasta ári hafði hann loks erindi sem erfiði. Í öðru sæti er svo Ævar Þór Benediktsson og má vel við una. Ef Skólastjóri hans hefði verið fáanleg undir lokin er aldrei að vita hvernig hefði farið. vísir/vilhelm

Kvöldsónata Ólafs Jóhanns Ólafssonar er mest selda bók síðasta árs samkvæmt Bóksölulista Félags íslenskra bókaútgefenda. Þetta segir Bryndís Loftsdóttir, framkvæmdastjóri Félags íslenskra bókaútgefenda.

Bryndís hefur nú tekið saman sölutölur og þar kemur þetta fram. Skólastjóri Ævars Þórs Benediktssonar vermdi efsta sæti Bóksölulistans lengi vel framan af en var orðin ófáanleg síðustu dagana fyrir jól. Hún endaði því árið sem önnur mest selda bókin og auðvitað mest selda barnabókin. Það er svo Tál Arnaldar Indriðasonar sem telst svo vera þriðja mest selda bókin og jafnframt mest selda glæpasaga ársins.

„Þess má geta að bókaskil fram að áramótum skila sér inn í listann en áhrif þeirra eru yfirleitt minni en ætla mætti. Auðvitað koma mest seldu bækurnar yfirleitt mest inn í skilum einfaldlega af því að meiri líkur eru á því að fleiri en eitt eintak berist inn á sama heimili. Á móti kemur að þessar bækur eru jafnframt vinsælastar meðal þeirra sem eru að skila öðrum bókum,“ segir Bryndís.

Sala í prósentum talið eftir tegundum

Sé litið til 100 mest seldu titlana þá má flokka þá þannig að 17 prósent þeirra flokkast sem óskáldað efni, það er að segja fræðirit, handbækur og ævisögur. Þá ber þess að geta að 28 prósent titlana teljast til þýddra og frumsaminna skáldverka, þar af eiga glæpasögur 16% og önnur skáldverk og ljóð 12 prósent.

Fjöldi titla sem tilheyra barna- og ungmennabókum teljast samanlagt 55 prósent, þar af eru 31 prósent myndríkar bækur fyrir yngsta aldurshópinn, 21 prósent bóka fyrir börn á aldrinum 6-12 ára og 3 prósent bóka eru ætlaðar ungmennum á aldrinum 12-18 ára.

Hlutföllin breytast svo lítið eitt, sé litið til fjölda seldra eintaka að baki þessara 100 mest seldu titla. Hlutfall fræðirita lækkar þannig um 1 prósent eða niður í 16 prósent, skáldverkin hækka um 3 prósent, glæpasögurnar um 7 prósent og barna og ungmennabækur lækka um 9 prósent.

Gekk vel að halda bókum að börnum

„Hver og einn getur túlkað þessar vísbendingar að vild en þó má í þær lesa að það bókmenntaform sem líklegast er til mestrar sölu er glæpasagan,“ segir Bryndís.

Þá má segja að þarna séu vísbendingar um að bæði útgáfa og sala bóka fyrir börn á aldrinum 0–12 ára sé í góðum málum á meðan útgáfa og sala ungmennabóka gefur tilefni til skoðunar á sértækum stuðningi líkt og reyndar líka útgáfa fræðibóka, ævisagna og bóka almenns efnis, að sögn Bryndísar.

Bryndís Loftsdóttir veit meira um bóksölu en gerist og gengur. Henni brá við að skoða frétt Vísis um jólagjafir fyrirtækjanna, þar voru engar bækur!vísir/vilhelm

„Ég hef á tilfinningunni að okkur hafi gengið mjög vel að halda bókum að börnum á síðasta ári en ekki að sama skapi að ungmennum og fullorðnum lesendum.“

Halló þið þarna fyrirtæki!

Og Bryndís, sem er með auga á hverjum fingri og skoðaði frétt Vísis um jólagjafir fyrirtækjanna.

„Það gætti til dæmis lítils stuðnings við lestur bóka í jólagjöfum þeirra fyrirtækja sem gerð voru kunn í fjölmiðlum eftir jól, ég held að á þeim listum hafi ekki fundist ein einasta bók. Og í sjónvarpsviðtali við formenn flokkanna nefndi aðeins einn þeirra bók þegar þeir voru beðnir um að velja jólagjöf fyrir hvern annan.“

Þetta þykja Bryndísi ekki góðar tvíbökur.

„Betur má ef duga skal og ég hvet landsmenn til þess að setja sér lestrarmarkmið fyrir árið. Ein bók á mánuði er til dæmis góð byrjun.“













Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.