Erlent

Hafa borið kennsl á sex­tán til við­bótar

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Fimm daga þjóðarsorg stendur yfir í Sviss.
Fimm daga þjóðarsorg stendur yfir í Sviss. AP

Lögreglu hefur tekist að bera kennsl á lík sextán til viðbótar sem létust í eldsvoða á skemmtistað á skíðasvæðinu Crans-Montana á gamlárskvöld. Fjórtán ára svissnesk stúlka er meðal látinna. 

Í frétt breska ríkisútvarpsins segir að níu af hinum sextán hafi verið undir átján ára aldri. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu voru hin látnu svissneskir, ítalskir, rúmenskir, tyrkneskir og franskir ríkisborgarar.

Borin hafa verið kennsl á 24 af hinum fjörutíu sem létust í eldsvoðanum. Borin voru kennsl á átta svissneska ríkisborgara í gær.

Líkt og fram hefur komið kviknaði eldur í lofti skemmtistaðarins Le Constellation á gamlárskvöld. Talið er að eldurinn hafi kviknað út frá gosblysi sem starfsmenn gengu með til þeirra sem höfðu keypt flöskur af áfengi. Talið er að svokölluð yfirtendrun, sem líkist sprengingu, skýri hversu hratt eldurinn breiddi úr sér. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×