Körfubolti

„Ó­trú­lega dýr­mætur sigur fyrir okkur“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Lárus Jónsson, þjálfari Þórs Þorlákshafnar.
Lárus Jónsson, þjálfari Þórs Þorlákshafnar. Vísir/Hulda Margrét

Lárus Jónsson, þjálfari Þórs frá Þorlákshöfn, var að vonum ánægður með sína menn eftir öruggan 30 stiga sigur gegn ÍA í 12. umferð Bónus-deildar karla í körfubolta í kvöld, 105-75.

„Það er gott að byrja árið á sigri, sérstaklega af því að við vorum náttúrulega með jafn mörg stig og ÍA fyrir þennan leik. Þannig þetta var ótrúlega dýrmætur sigur fyrir okkur,“ sagði Lárus í leikslok.

Hann segist hafa búist við meiri mótstöðu frá Skagamönnum í kvöld, en að fjarvera lykilmanna þeirra hafi vissulega útskýrt ýmislegt.

„Þá vantaði náttúrulega besta manninn sinn undir körfuna þannig við höfðum nokkra yfirburði þar,“ sagði Lárus og átti þá við Gojko Zudzum sem hefur verið frá vegna meiðsla frá því snemma í desember.

„Það skóp svolítið þennan sigur hjá okkur. Svo voru þeir Kanalausir þannig það vantaði mikið í liðið hjá Skagamönnum.“

Eins og Lárus segir höfðu Þórsarar mikla yfirburði undir körfunni í kvöld og það sást kannski best á því að Djordje Dzoletovic skoraði 25 stig og tók 10 fráköst, bara í fyrri hálfleik. Lárus ákvað hins vegar að gefa honum góða hvíld í seinni hálfleik.

„Mér fannst menn vera að sýna fína baráttu og ágætis frammistöðu. Allir sem voru að koma inn á voru að leggja eitthvað í púkkið. Leikurinn byrjaði þannig að við vorum aðeins að fara fram úr okkur og við vorum aðeins æstir í að fá að vinna þennan leik.“

Hann hrósaði einnig ungu strákunum í liðinu fyrir mikið og gott orkustig.

„Mér fannst bæði Skarphéðinn (Árni Þorbergsson) og Ísak (Júlíus Perdue) og bara ungu strákarnir búnir að vera að gera þetta svolítið í vetur. Það skilaði sér vel í kvöld og Skarphéðinn var sérstaklega góður fyrir okkur núna.“

Að lokum segist hann vonast til að geta tekið orkuna úr þessum leik með sér í þann næsta, en viðurkennir þó að sá leikur verði að öllum líkindum mun erfiðari.

„Næsti leikur er náttúrulega úti á móti Álftanesi. Það verður stórleikur,“ sagði Lárus að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×