Innlent

Telur nær öruggt að fleiri hundar muni týnast

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Flugeldar fara ekki vel í flesta hunda.
Flugeldar fara ekki vel í flesta hunda. Vísir/Vilhelm

Metfjöldi hunda hefur verið tilkynntur týndur undanfarna daga vegna flugelda, 35 hundar hafa verið tilkynntir týndir frá 28. desember og níu frá því á miðnætti á gamlárskvöldi. Sjálfboðaliði Dýrfinnu segist telja nær öruggt að fleiri hundar muni týnast næstu daga á meðan flugeldum er skotið upp, eigendur þurfi að vera á varðbergi.

„Það er mjög leiðinlegt að segja það en það eiga pottþétt fleiri hundar eftir að týnast, því miður,“ segir Eygló Anna Guðlaugsdóttir sjálfboðaliði hjá Dýrfinnu í samtali við Vísi. Samtökin birtu í gær yfirlýsingu þar sem þau ráku verkefni undanfarna daga.

„Hvar eigum við að byrja? Þetta eru tölurnar sem við höfum náð að skrifa hjá okkur! 35 hundar tilkynntir týndir eftir að hafa stungið af vegna hræðslu flugelda frá 28. desember. Við vitum til þess að NÍU hundar voru týndir yfir áramótin eftir að hafa stungið af fyrr um kvöldið.“

Eygló segir sjálfboðaliða því eðli málsins samkvæmt hafa nóg að gera. Enn sé leitað að tveimur hundum en annar þeirra týndist 16. desember. Eygló biðlar til eigendur hunda um að vera vel á varðbergi næstu daga en viðbúið er að flugeldum verði víða skotið upp allt þar til á þrettándanum 6. janúar.

„Það sem við getum gert á meðan þessu stendur er að sleppa lausagöngu, passa að hafa dýrin alltaf í bandi. Passa líka að þau séu skráð í gagnagrunn dýraauðkenni og séu með merkisspjöld, þannig að hægt sé að koma þeim strax til sín heima og þeir þurfa ekki að enda hjá hundafangaranum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×