Sport

Kemst bak­dyra­megin inn í sína bestu grein á Ólympíu­leikunum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jutta Leerdam klúðraði undankeppninni en fær samt að keppa í sinni bestu grein á komandi Vetrarólympíuleikum.
Jutta Leerdam klúðraði undankeppninni en fær samt að keppa í sinni bestu grein á komandi Vetrarólympíuleikum. Getty/Marcel ter Bals

Hollenski skautahlauparinn Jutta Leerdam fékk frábærar fréttir á fyrsta degi nýs árs.

Leerdam er einn allra besti skautahlaupari heims og heimsmeistari í 1000 metra skautahlaupi.

Í hollensku undankeppninni fyrir Vestraólympíuleikana í Mílanó og Cortina þá varð hún fyrir því óheppi að falla í brautinni og detta úr leik í sinni bestu grein.

Hún náði hins vegar að tryggja sér hollenska Ólympíusætið í 500 metra hlaupinu og það átti á endanum eftir að hjálpa henni að fá þátttökurétt í aðalgreininni hennar.

„Sjáumst í Mílanó í 500 og 1000 metrunum,“ skrifaði Jutta Leerdam á samfélagsmiðla sína í kvöld.

„Eftir fallið mitt í 1000 metrunum náði ég aftur einbeitingu, kom til baka og tryggði mér sæti í 500 metrunum,“ skrifaði Leerdam.

„Aðeins níu hollenskar konur í heildina geta komist á leikana. Ég var ein af þessum níu með 500 metra hlaupinu mínu. Þar sem eitt sæti var enn laust í 1000 metrunum ákvað hollenska skautsambandið að bæta mér við í þá grein,“ skrifaði Leerdam.

Leerdam fékk silfur í 1000 metra skautahlaupi á síðustu Ólympíuleikum í Peking og verður í baráttunni um gullið í ár.

„Það sem gleður mig mest er að þessi ákvörðun hefur ekki áhrif á neina aðra konu. Ég er svo þakklát fyrir að allt hafi gengið upp. Mílanó, við erum á leiðinni,“ skrifaði Leerdam.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×