Erlent

Hand­tóku 357 meinta ISIS-liða í kjöl­far mann­skæðra á­taka

Samúel Karl Ólason skrifar
Skjáskot úr myndbandi sem sýna á aðgerðir lögreglunnar í Tyrklandi.
Skjáskot úr myndbandi sem sýna á aðgerðir lögreglunnar í Tyrklandi.

Yfirvöld í Tyrklandi hafa handtekið 357 menn sem grunaðir eru um að tengjast Íslamska ríkinu.  Var það gert í kjölfar skotbardaga milli lögregluþjóna og ISIS-liða í gærmorgun þar sem þrír lögregluþjónar, öryggisvörður og sex ISIS-liðar féllu.

Innanríkisráðherra Tyrklands sagði í dag að aðgerðirnar hefðu náð til 21 héraðs í Tyrklandi.

Íslamska ríkið hefur alltaf verið talið tiltölulega umsvifamikið í Tyrklandi. Vígamenn samtakanna hafa gert árásir þar í landi og skutu meðal annars 39 til bana á skemmtistað í Istanbúl á nýársdag 2017.

Þá er Tyrkland af sérfræðingum talið notað sem nokkurs konar miðstjórn fyrir anga samtakanna víðsvegar um heiminn.

Ali Yerlikaya, áðurnefndur innanríkisráðherra, deildi myndbandi af aðgerðum lögreglunnar.

Tyrkneski miðillinn TRT World hefur eftir lögreglustjóranum í Istanbúl að þar hafi 110 menn verið handteknir á 114 mismunandi stöðum þar sem gerð var húsleit. Af þeim er 41 sagður tengjast hryðjuverkamönnunum sem lögregluþjónar börðust við Yalova-héraði í gær.

Sjá einnig: Þrír lögregluþjónar og sex ISIS-liðar fallnir eftir átök í Tyrklandi

Mennirnir í Istanbúl eru sagðir hafa verið að skipuleggja hryðjuverkaárásir um áramótin.

Þá hefur TRT eftir saksóknurum í Ankara að sautján meintir ISIS-liðar hafi verið handteknir þar. Ellefu þeirra hafi verið erlendir og mennirnir séu grunaðir um að hafa átt í samskiptum við aðila á átakasvæðum í heiminum.

Einhverjir þeirra sem hafa verið handteknir eru grunaðir um að hafa safnað fé í skjóli meintrar góðgerðarstarfsemi en senda peningana til Íslamska ríkisins í Sýrlandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×