Erlent

Á lista yfir þrjú hlýjustu ár í mælingasögunni

Kjartan Kjartansson skrifar
Konar hellir vatni á höfuð aldraðs manns vegna hitans í Dauðadalsþjóðgarðinum í Kaliforníu í Bandaríkjunum í ágúst.
Konar hellir vatni á höfuð aldraðs manns vegna hitans í Dauðadalsþjóðgarðinum í Kaliforníu í Bandaríkjunum í ágúst. AP/John Locher

Árið sem er að líða er á meðal þeirra þriggja hlýjustu frá því að mælingar hófust samkvæmt greiningu vísindamanna. Meðalhiti síðustu þriggja ára mælist nú í fyrsta skipti yfir viðmiðunarmörkum Parísarsamkomulagsins.

Helstu alþjóðlegu stofnanir sem halda utan um mælingar á meðalhita jarðar hafa ekki enn birt lokatölur sínar fyrir árið. Samtökin World Weather Attribution birtu hins vegar í dag greiningu sína sem bendir til þess að árið 2025 endi sem eitt þriggja hlýjustu áranna í mælingasögunni. 

Niðurstaða hópsins er einnig að meðalhiti síðustu þriggja ára sé rúmlega 1,5 gráðum hærri en viðmiðunartímabil fyrir iðnbyltingu. Það er þá í fyrsta skipti sem það gerist frá því að ríki heims sömdu um að reyna að halda hnattrænni hlýnun innan við eina og hálfa gráðu í Parísarsamningnum árið 2015.

Hópurinn sem greindi hitamælingarnar er þekktastur fyrir rannsóknir sínar á hversu mikil áhrif hnattræn hlýnun af völdum manna hefur á einstaka veðurviðburði. 

Hann greindi meðal annars áhrifin á hitabylgjuna á Íslandi í maí og komst að því að hlýnunin hefði gert hana fjörutíu prósent líklegri en ella og þremur gráðum hlýrri.

Á annað hundrað veðuröfgaatburðir

Einn fylgifiska hnattrænnar hlýnunar er vaxandi veðuröfgar. Hópurinn greindi 157 veðurviðburði sem hann telur öfgafulla á árinu. Skilgreiningin á slíkum atburðum er að þeir hafi valdið fleiri en hundrað mannslátum, haft áhrif á meira en helming íbúa á tilteknu svæði eða að neyðarástandi hafi verið lýst yfir vegna þeirra.

Mannskæðustu veðuröfgarnar í ár voru hitabylgjur. Sumar þeirra voru allt að tífalt líklegri til þess að eiga sér stað nú en fyrir áratug vegna þeirrar manngerðu hlýnunar sem hefur orðið.

„Hitabylgjurnar sem við höfum orðið vitni að í ár eru tiltölulega tíðir viðburðir í okkar loftslagi en nær ómögulegt hefði verið að þær ættu sér stað án hnattrænnar hlýnunar af völdum manna. Hún hefur gríðarleg áhrif,“ segir Friederike Otto, vísindamaður frá Imperial College í London og einn stofnenda World Weather Attribution.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×