Fótbolti

Zidane sá soninn spila á Afríkumótinu

Valur Páll Eiríksson skrifar
Zidane eldri og fyrir framan hann er einn fjögurra sona hans, Theo, er þeir fylgjast með Luca Zidane halda hreinu í fyrsta leik hans á stórmóti.
Zidane eldri og fyrir framan hann er einn fjögurra sona hans, Theo, er þeir fylgjast með Luca Zidane halda hreinu í fyrsta leik hans á stórmóti. Skjáskot

Zinedine Zidane, einn besti fótboltamaður sögunnar, var á meðal áhorfenda á leik Alsír við Súdan á Afríkumótinu í Rabat í Marokkó í gær.

Luca Zidane, einn fjögurra sona Zinedine, var að spila sinn fyrsta leik á stórmóti í gær er Alsír vann öruggan 3-0 sigur á Súdan sem missti mann af velli í fyrri hálfleik.

Zidane eldri er af alsírskum ættum en uppalinn í Frakklandi og vann á sínum tíma bæði HM og EM með franska landsliðinu í kringum áramótin. Synir hans hafa flestir alist upp á Spáni þar sem Zidane spilaði síðustu ár á ferli sínum sem leikmaður og varð síðar þjálfari hjá Real Madrid.

Zidane var ásamt öðrum syni sínum, Theo, leikmanni Córdoba á Spáni, í stúkunni að fylgjast með Luca halda hreinu í gær.

Luca er 27 ára gamall og byrjaði að leika fyrir landslið Alsír fyrr á þessu ári eftir að hafa áður spilað fyrir yngri landslið Frakklands. Hann ver mark Granada í næst efstu deild Spánar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×