Fótbolti

Mahrez batt enda á bið Alsíringa

Valur Páll Eiríksson skrifar
Mahrez var hetja dagsins.
Mahrez var hetja dagsins. Torbjorn Tande/DeFodi Images/DeFodi via Getty Images

Langri bið Alsíringa eftir sigri á Afríkukeppninni í fótbolta lauk strax í fyrsta leik í ár. Riyad Mahrez á heiðurinn að því.

Alsír varð meistari í Afríkukeppninni árið 2019 en hefur síðan ekki unnið leik á mótinu - spilað sex leiki án sigurs - þar sem liðið féll úr keppni í riðlakeppninni á síðustu tveimur mótum.

Fastlega var búist við því að sú sigurlausa hrina tæki enda þegar stríðshrjáðir Súdanar mættu Alsír í fyrsta leik liðanna á mótinu í Marokkó í dag.

Riyad Mahrez, fyrrum leikmaður Manchester City og Leicester, kom Alsír yfir með snúningsskoti eftir aðeins 80 sekúndna leik. Súdanar urðu svo manni færri rétt fyrir hlé þegar Salaheldin Adil var vísað af velli eftir að hafa fengið sitt annað gula spjald.

Mahrez skoraði öðru sinni þegar rúmur stundarfjórðungur var liðinn af síðari hálfleik áður en varamaðurinn Ibrahim Maza skoraði þriðja markið á 86. mínútu.

Leiknum lauk 3-0 fyrir Alsíringa sem eru efstir í E-riðli mótsins en fyrr í dag vann Búrkína Fasó 2-1 sigur á Miðbaugs-Gíneu í sama riðli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×