Innlent

Hafnar „jólakveðju“ ríkisins

Jón Ísak Ragnarsson skrifar
Steinþór Gunnarsson var sýknaður í Landsrétti í vor eftir sautján ára baráttu við ríkið.
Steinþór Gunnarsson var sýknaður í Landsrétti í vor eftir sautján ára baráttu við ríkið. Vísir/Anton Brink

Fyrrverandi bankamanninum Steinþóri Gunnarssyni hafa verið boðnar fjórar milljónir króna í skaðabætur fyrir að hafa verið ranglega sakfelldur í Ímon-málinu svokallaða. Hann segist ekki ætla samþykkja boðið og ætlar að höfða mál gegn ríkinu.

„Mér var að berast jólakveðja frá íslenska ríkinu,“ sagði Steinþór í stuttri færslu á samfélagsmiðlum í dag..

„Þar voru mér boðnar 4 milljónir í skaðabætur fyrir að vera ranglega sakfelldur og ofsóttur af starfsmönnum ríkisins í 17 ár. Ég mun að sjálfsögðu ekki samþykkja þetta kostulega boð ríkisins og mun því þurfa að eyða næstu 3-4 árum í frekari baráttu við kerfið.“

„Kæru ættingjar og vinir, mínar bestu óskir um gleðileg jól.“

Steinþór Gunnarsson var sakfelldur bæði í héraði og Hæstarétti fyrir markaðsmisnotkun í starfi sínu sem þáverandi fostöðumaður verðbréfamiðlunar Landsbankans fyrir að kynna kaup Ímons á hlutabréfum í bankanum sem raunveruleg viðskipti, í miðju bankahruninu árið 2008.

Í apríl á þessu ári var málið tekið upp að nýju og Steinþór sýknaður í Landsrétti, en Steinþór segir að réttarkerfið hafi brugðist í málinu.

Í samtali við Morgunblaðið segir Steinþór að hann hafi fengið bréf frá ríkislögmanni þar sem honum voru boðnar fjórar milljónir króna í skaðabætur, sem hann hyggst ekki ætla samþykkja.

Verði ekki stefnubreyting hjá ríkislögmanni, þurfi bara að stefna ríkinu fyrir héraðsdóm til greiðslu hærri skaðabóta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×