Erlent

Rann­saka hvort feðgarnir fengu herþjálfun á Filipps­eyjum

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Mikil sorg ríkir í Sydney og einsýnt að ráðist verður í breytingar á lögum um skotvopnaeign.
Mikil sorg ríkir í Sydney og einsýnt að ráðist verður í breytingar á lögum um skotvopnaeign. Getty/George Chan

Svo virðist sem feðgarnir sem stóðu fyrir árásinni á Bondi-strönd um helgina og myrtu fimmtán, hafi fundið innblástur í Ríki íslam. Tveir heimagerðir Ríki íslam fánar fundust í bifreið þeirra og þá hefur verið staðfest að þeir hafi ferðast til Filippseyja, mögulega til að fá herþjálfun.

Af þeim 42 sem særðust í árásinni dvelja 25 enn á spítala, þar af eru að minnsta kosti þrír í lífshættu.

Naveed Akram, 24 ára, og Sajid Akram, 50 ára, létu til skarar skríða á sunnudag, þegar verið var að halda upp á ljóshátíð gyðinga, hanukkah, á ströndinni. Naveed var handtekinn í kjölfar árásarinnar en Sajid skotinn til bana.

Feðgarnir ferðuðust til Filippseyja eftir að Naveed hafði greint yfirmönnum sínum frá því að hann hefði úlnliðsbrotnað og yrði ekki vinnufær fyrr en 2026. Óskaði hann eftir því að fá það greitt sem hann átti inni hjá fyrirtækinu.

Naveed ferðaðist á áströlsku vegabréfi en Sajid á inversku. Lögregla rannsakar nú hvers vegna þeir fóru til Filippseyja og hvað þeir gerðu á meðan þeir voru þar.

Eins og fyrr segir er talið mögulegt að þeir hafi sótt þar herþjálfun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×