Menning

„Ef ein­hver telur að ég hljóti að vera sjúkur, þá verður að hafa það“

Jakob Bjarnar skrifar
Reynir ryðst inn á ritvöllinn með látum. Hann segir að kærastan hafi skorað á sig að skrifa skáldsögu um fjöldamorðingja. Honum þótti þetta fráleitt í fyrstu en settist niður og ritaði: Ég er fjöldamorðingi...
Reynir ryðst inn á ritvöllinn með látum. Hann segir að kærastan hafi skorað á sig að skrifa skáldsögu um fjöldamorðingja. Honum þótti þetta fráleitt í fyrstu en settist niður og ritaði: Ég er fjöldamorðingi... vísir/vilhelm

Sjaldan eða aldrei hefur nýliði hlaupið inn á ritvöllinn með öðrum eins látum og Reynir Finndal Grétarsson. Hann er mættur til leiks ekki með eina heldur tvær bækur í jólabókaflóðið; Fjórar árstíðir sem er opinská sjálfsævisaga Reynis og svo er hann með afar dimman krimma, eða trylli, sem heitir Líf.

„Hann skilaði krimmanum inn degi eftir að ævisagan kom í hús,“ segir Tómas Hermannsson, útgefandi Reynis. Tómas er forviða og sannfærður um að Reynir eigi framtíðina fyrir sér sem rithöfundur. „Þetta er sá næsti stóri,“ segir Tómas en vert er að hafa hugfast að útgefendur eru afar ákafir fyrir hönd höfunda sinna á þessum tíma árs. Tómas hefur þó það fyrir sér í þessu að Líf er tilnefnt til Bróðdropans, sem hlýtur að teljast frábær árangur.

Saga Reynis er að sönnu athyglisverð. Hann hefur verið öflugur athafnamaður, stofnaði Lánstraust sem síðar varð að Creditinfo. Það fyrirtæki tók flugið og varð að alþjóðlegu fyrirbæri. Reynir gerðist fjárfestir, hann er til að mynda stærsti einstaki hluthafinn í Sýn (sem á og rekur Vísi) og eiga hann og félagar 18,5 prósent í fyrirtækinu.

Reynir tók til í lífi sínu og endaði á löppunum sem rithöfundur, þó hann vilji ekki endilega titla sig sem slíkan.vísir/vilhelm

Reynir ákvað þá að vera ekki í sviðsljósinu sjálfur, vera til að mynda ekki í viðtölum en 2017 tók líf hans stakkaskiptum. Hann fann ekki lífsfyllingu og seldi sinn hlut í Creditinfo. Blaðamaður Vísis og Reynir mæltu sér mót og Reynir setur plötuna Mutter með Rammstein á fóninn. „Óttarr Proppé sagði að Líf væri rokk og ról í rituðu máli. Mér þótti vænt um það, einmitt það sem ég vil að þetta sé,“ segir Reynir.

Þó hér standi til að Líf sé í forgrunni er eiginlega ekki hægt annað en að spyrja hann lauslega út í þessi umskipti fyrst.

„Mein Hertz brennt,“ segir Reynir og vísar til plötunnar.

Hvað gerðist?

„Ég var í tilvistarkreppu og ákvað að fara til Þýskalands í þrjá mánuði til að reyna að laga hugsanirnar mínar. Ég fann ekki tilgang.“

„Ég er fjöldamorðingi“

Reynir tók þá til við að rita ævisögu sína, reyna að átta sig á hver hann eiginlega væri? 

„Ég gerði uppkast á nokkrum vikum. Þetta gekk það vel, orðin bara hrúguðust upp, nokkur þúsund á dag. Kærastan mín skoraði svo á mig að skrifa glæpasögu.“

Og þurfti ekki meira að koma til? (Reynir hugsar sig um.)

„Mér fannst það ekkert spennandi fyrst. En hún sagði að ég gæti skrifað um íslenskan fjöldamorðingja. Jú, það gæti verið áskorun, hugsaði ég. Settist þá niður og skrifaði: „Ég er fjöldamorðingi.“

Og þá varð ekki aftur snúið. Reynir var reyndar ekki algjör nýgræðingur þegar bókaskrif eru annars vegar.

„Nei. Ég gerði smá tilraun um páskana 2010. Skrifaði 40 þúsunda orða glæpasögu. Prentaði hana sjálfur í 100 eintökum, það var í raun bara uppkast. Ég vildi prófa hvort ég gæti gert svona. Mér fannst það alveg ganga. Svo þurfti ég að reka mitt fyrirtæki og lífið var þarna fyrir.“

Án þess að Reynir hafi hugsað það flokkast ný skáldsaga hans sem krimmi og hefur verið tilefnd til Blóðdropans.vísir/vilhelm

Og nú ómar Sonne í bakgrunninum og blaðamaður er sammála Reyni, Rammstein klikkar ekki og er á einhvern einkennilegan hátt afar viðeigandi. 

Nema, þetta er sem sagt nokkuð sem hefur blundað í þér lengi? Ekki eins og þú hafir vaknað einn daginn og hugsað: Nú ætla ég að verða rithöfundur?

„Njahhh. Meira eins og ég hafi vitað af þessum möguleika. Í millitíðinni skrifaði ég og gaf út tvær bækur um gömul landakort. Kortlagning Íslands (2017) og Kortlagning heimsins (2022). Að skrifa skáldsögu togaði samt ekkert í mig, ekki fyrr en þarna og þá mest sem áskorun.

Reynir segir áskorunina hafa fyrst og fremst falist í að gera eitthvað öðruvísi. „Fjöldamorðingi í fyrstu persónu. Sem talar við lesandann, vekur hjá honum óhug. En sem fer kannski að fá einhvern skilning, jafnvel samúð. Án þess að við viljum segja of mikið um efni bókarinnar.“

Ekkert má trufla framvinduna

Þetta er vandasamt og hefur vitaskuld verið reynt áður að mæla söguna fram sem varmenni. Til að mynda þá skrifaði Stefán Máni við upphaf síns ferils 1. persónu Myrkravél, skáldsögu þar sem aðalpersónan var hreinræktað illmenni. 

Og fleiri dæmi má vitaskuld nefna. Frásagnarhátturinn býr yfir þeim töfrum að sé saga sögð í 1. persónu fer lesandinn ósjálfrátt að halda með og samsama sig persónunni. Pælirðu mikið í frásagnarhætti?

„Já, eða ég er að reyna að skapa einhver hughrif. Kalt, hart en samt með einhverri fegurð. Ég vil ekki vera háfleygur með það. Aðallega reyndi ég að skrifa bókina sem ég myndi vilja lesa. Ekki eyða tíma í eitthvað skraut, eitthvað mikið um bakgrunn persóna sem skiptir ekki máli, ekki lýsa einhverjum sófa. Bara setja senuna og svo áfram, áfram. Það gengur fjöldamorðingi laus og við höfum ekki tíma fyrir neitt sem hægir á.“

Ef fólk vill tengja höfund við söguna, og kemst þá að því að hann sé sjúkur, þá verður bara að hafa það.vísir/vilhelm

Reynir segir þetta snúið.

„Ég skrifaði athugasemd við fyrsta uppkast, þess efnis að allt væri tilbúningur. Mér fannst hætta á að fólk héldi að ég væri orðinn klikkaður. Einmitt, að það tengdi söguna við mig. En það fór út, það passaði ekki við að vera með einhvern tepruskap.“

Þú hefur sem sagt þurft að yfirvinna ýmsar sálarflækjur. Hvað varstu lengi að skrifa söguna?

„Það tók mig tvær vikur að gera uppkastið, þetta bara kom. Svo fór verulegur tími í að bæta við og laga. Ég fór í að bæta við talsverðu sem snýr að bakgrunni. Meðal annars varðandi mansal. Ég fór í Stígamót, stúderaði þetta þó nokkuð. En svo í lokayfirferðum þá tók ég megnið af því út aftur. Það hægði of mikið á framvindunni.“

Hafði ekkert pælt í hvaða tegund sagan tilheyrði

Hrafn Jökulsson vinur minn heitinn sagði eitt sinn að það væru engar skáldsögur sem ekki fjölluðu um einhvers konar glæp. Sko, ég er forvitinn að heyra þína sýn á því hvernig þú flokkar krimma/trylli; hver er munurinn á glæpasögu og svo skáldsögu?

„Ég ætlaði bara að skrifa sögu. Ég vissi ekki einu sinni að þetta væri flokkað svona skýrt. Fyrir mér var þetta meira ástarsaga, þótt glæpir væru bakgrunnurinn. Við Hrafn værum sennilega sammála um þetta atriði.“

Ekki verður hjá því litið að glæpasagan er langvinsælust meðal íslenskra lesenda.vísir/vilhelm

Reynir segist ekki geta sagt til um hvernig beri að flokka Líf. Hann hafi ekki einu sinni skoðun á því.

„Ég skrifa bara sögu án þess að vera með einhverja flokkun í huga.“

Athyglisvert. Þú ert náttúrlega tilnefndur til Blóðdropans, einn karla?

„Já, þetta er víst krimmi. Ég var ekki að hugsa um það og þekki ekkert skáldsagnabransann. Já, ég fékk þessa tilnefningu. Er mjög ánægður með það auðvitað og finnst það ekkert vera minni heiður en tilnefning í einhverjum öðrum flokki. Nema síður sé, þetta er sá flokkur bóka sem er vinsælastur meðal lesenda.“

Um það verður varla deilt. Þar er ekkert lát á.

Dimmur og bersögull krimmi

Erfitt er að fjalla um Líf án þess að spilla en þó má segja að hún sé afar dimm og bersögul. Þú hefur til að mynda ekki óttast að fólk tengdi slíkar lýsingar beint við höfundinn? Veittist það þér ekkert erfitt að láta vaða?

„Jú, það var alveg … erfitt. Þetta var að einhverju leyti útrás, eftir að hafa skrifað ævisöguna. Hún var skrifuð þegar ég var enn að vinna úr sársauka. Svo þegar við vorum að ganga frá henni var ég kominn með ákveðnar efasemdir. Hvort það ætti kannski að tóna niður einhvern hrylling eða kynlífslýsingar. En mér var sagt að hreyfa ekki við því, leyfa þessu að vera ögrandi og allt að því óþægilegt. Ég er sáttur með það. Þetta er sköpun og hún má alveg vera ögrandi, á jafnvel að vera það.“

Algjörlega.

„En ég hef verið spurður hvað sé eiginlega að mér? Hvaðan svona nokkuð kemur? En þetta er bara skáldskapur, tilbúningur. Sem þarf þá ekki að vera eins og lífið sjálft. Líkt svo það sé ekki ókunnuglegt, en bara ýktara.“

Reynir segist ekki vera með lífshlaup sitt niðurneglt en hann sé klár með tvö handrit sem Tómas Hermannsson er áfjáður í að gefa út.Vísir/Vilhelm

Allt er þetta satt og rétt. Sko, ég er að velta því fyrir mér hvort menn hafi ekki þurft að ræsa upp sérstakt hugrekki, svona í ljósi þess að um er að ræða fyrstu bók, með svona djörfum lýsingum?

„Jú. Sennilega er það rétt hjá þér. En áskorunin var að gera eitthvað djarft. Að þora. Ef einhver telur að ég hljóti að vera eitthvað sjúkur, þá verður að hafa það. Ég geri mér alveg grein fyrir að einhverjum þykir þetta óþarfi. En útgefandinn sannfærði mig sem sagt um að leyfa þessu að fara svona og ég held að það hafi verið rétt.“

Þegar kominn í samtal við kvikmyndaframleiðendur

Útgefandinn er kátur. Og þá er rétt að spyrja hvort þú stefnir á að halda ótrauður áfram á þessari braut?

„Ég er með drög að tveimur svona „ástarsögum“ í viðbót. Sami söguheimur. Og útgefandinn er búinn að sjá þær og vill gefa þær út. Hann vill að ég skrifi fleiri. Ég held áfram meðan þetta togar í mig, ég þarf ekkert að ákveða núna hvert það leiðir.“

Reynir spyr hvort Listamannalaunin séu ekki einmitt hugsuð fyrir nýliða á ritvellinum?Vísir/Vilhelm

Reynir hugsar sig um og segir svo:

„Það er ekki áfangastaðurinn, það er ferðalagið.“

Ók. Og sækja þá um listamannalaun?

„Eiga þau ekki að vera helst fyrir okkur ungskáldin?“

Reynir hlær.

„En varla, ég nýt þeirra forréttinda að þurfa ekki að reiða mig á tekjur af þessu til framfærslu. Það eru ekki miklir peningar í þessu, nema menn nái miklum árangri erlendis. Ég held að það geti verið gaman að láta reyna á þetta erlendis. Ég er líka í viðræðum við kvikmyndaframleiðanda um að Líf verði bíómynd. Svo það er margt áhugavert í þessu brasi.“

Rithöfundur er tignarheiti í huga Reynis

Reynir er kominn á fullt í allt sem bókaútgáfu tengist, kynningar og upplestrar. Þegar Vísir var að reyna að fá Reyni til að setjast niður í spjall um bókina var hann á leið með handrit til Guðrúnar Evu til yfirlestrar og svo var það bókaspjall hjá Arion banka með Evu Björg og Andra Snæ.

„Þetta er nýtt hlutverk en það er svo mikil jákvæðni gagnvart þeim sem eru í þessu og þeirra á milli, að enn þá allavegana er mjög gaman.“

Þannig að næsta skref er að titla sig rithöfund í símaskrá?

„Sko, ég hef aldrei kallað mig neitt sérstakt. Merkimiðar eru ekki endilega til gagns. Mér fannst ég aldrei vera fjárfestir, athafnamaður eða eitthvað þannig. Rithöfundur er reyndar tignarheiti í mínum huga, kannski finnst ég ekki verðugur. Leyfum bara öðrum að kalla mig það sem þeir vilja.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.