Enski boltinn

„Þegar þú spilar fyrir Liverpool verðurðu bara að vinna leiki“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hugo Ekitike fagnar öðru marka sinna í dag með liðsfélögunum Ibrahima Konate og Virgil van Dijk.
Hugo Ekitike fagnar öðru marka sinna í dag með liðsfélögunum Ibrahima Konate og Virgil van Dijk. EPA/ADAM VAUGHAN

Hugo Ekitike var aðalmaðurinn í langþráðum sigri Liverpool í ensku úrvalsdeildinni í dag en franski framherjinn skoraði bæði mörkin í 2-0 sigri.

Ekitike skoraði fyrra markið eftir aðeins 46 sekúndur en það seinna með skalla eftir hornspyrnu Mo Salah í seinni hálfleik.

Frakkinn var kátur í leikslok.

„Ég myndi ekki segja að þetta hafi verið fullkomið því ég veit að ég hefði getað skorað mun fleiri mörk í dag. Það mikilvægasta var að vinna fyrir framan stuðningsmennina okkar. Þetta var góður dagur í vinnunni,“ sagði Hugo Ekitike.

Spyrillinn fékk hann til að lýsa fyrra marki sínu sem var það fljótasta sem hefur verið skorað í leik í ensku úrvalsdeildinni á leiktíðinni.

„Boltinn kom hratt. Ég reyndi að vera tilbúinn. Maður býst ekki við að skora á fyrstu mínútu og ég reyni alltaf að vera viðbúinn,“ sagði Ekitike. Hann hrósaði Salah fyrir stoðsendinguna í seinna markinu.

„Hann gaf mér frábæran bolta, ég þurfti bara að vera á réttum stað. Það var auðvelt að klára færið,“ sagði Ekitike.

„Ég var að leita að þrennunni en hún kemur bara næst. Þetta var gott, tvö mörk. Við reynum að halda saman og vinna saman. Þetta var ekki auðvelt í dag. Við þurftum að halda þétt saman og standa saman. Mér finnst við hafa átt þetta skilið. Við áttum frábæra viku og höldum bara áfram,“ sagði Ekitike.

„Þegar þú spilar fyrir Liverpool verðurðu bara að vinna leiki. Við erum Liverpool, við þurfum að vinna,“ sagði Ekitike.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×