Enski boltinn

Rooney var hótað líf­láti eftir að hann fór til Man Utd

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Wayne Rooney stillir sér upp við merki Mancester United á Old Trafford eftir að hann var kynntur sem nýr leikmaður félagsins.
Wayne Rooney stillir sér upp við merki Mancester United á Old Trafford eftir að hann var kynntur sem nýr leikmaður félagsins. Getty/Matthew Peters

Wayne Rooney, fyrrverandi framherji enska landsliðsins og goðsögn hjá Manchester United, segist hafa fengið líflátshótanir þegar hann fór frá uppeldisfélagi sínu Everton til United.

Átján ára gamall samdi Rooney við Rauðu djöflana sem keyptu hann frá Everton fyrir 27 milljónir punda árið 2004. Rooney hafði þá hafnað metsamningstilboði frá Toffees.

Félagaskipti Rooney frá Merseyside leiddu til harðra viðbragða hjá sumum stuðningsmönnum Everton.

„Ég fékk líflátshótanir,“ sagði Rooney í nýjasta þætti BBC Sport, The Wayne Rooney Show.

„Hús foreldra minna var úðað með málningu og skemmt. Hús kærustu minnar á þeim tíma, nú eiginkonu minnar, var úðað með málningu,“ sagði Rooney.

„Ég held að það sé þá sem maður þarf að vera andlega sterkur. Fólkið í kringum mann þarf að hjálpa,“ sagði Rooney.

„Það var erfitt að fara því ég fór til Manchester United, og það var mikill rígur milli Liverpool og Manchester svo það gerði þetta mun erfiðara. En ég var alltaf með það hugarfar að „mér er alveg sama“. Ég vissi hvað ég vildi og ég vissi hvernig ég ætti að komast þangað,“ sagði Rooney.

„Ég varð að vera harður í huganum. Þetta var fólk úr borginni minni svo það var erfitt en ég hugsaði „mér er alveg sama“, maður verður að vera eigingjarn og taka þessar ákvarðanir,“ sagði Rooney.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×