Sport

Ólympíumeistari í bráðaaðgerð á hálsi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hin svissneska Michelle Gisin hefur unnið þrenn verðlaun á Ólympíuleikum og þótti líkleg til að bæta við fleirum á nýju ári.
Hin svissneska Michelle Gisin hefur unnið þrenn verðlaun á Ólympíuleikum og þótti líkleg til að bæta við fleirum á nýju ári. Getty/ Alain Grosclaude

Aðeins tveimur mánuðum fyrir Vetrarólympíusleikana lenti ein stærsta svissneska alpastjarnan í alvarlegu slysi á æfingu.

Á fimmtudagsmorgun varð ljóst að tvöfaldur ólympíumeistari, Michelle Gisin, hafði fallið illa á brunæfingu á heimavelli í St. Moritz. Gisin var flutt úr brekkunni með þyrlu eftir að óhappið varð.

Í gærkvöldi sendi svissneska skíðasambandið frá sér uppfærslu á heilsufari þessarar reyndu skíðakonu. Hún þurfti að fara í bráðaaðgerð á hálsi eftir slæma byltu en getur hreyft handleggi og fætur.

Þar kemur fram að rannsóknir hafi leitt í ljós áverka á hægri úlnlið, vinstra hné og efri hluta hryggsúlu.

„Til að meðhöndla hálsliðina hefur Gisin verið flutt á Hirslanden-sjúkrahúsið í Zürich af svissnesku flugbjörgunarsveitinni. Þar verður gerð aðgerð á hálsliðunum í dag,“ skrifar sambandið og bætir við:

„Gisin líður vel miðað við aðstæður og getur hreyft handleggi og fætur eðlilega.“

Áverkar alpastjörnunnar á hægri úlnlið og vinstra hné verða einnig rannsakaðir frekar. Það er þó ekki hægt að gera fyrr en búið er að koma stöðugleika á hálsliðina.

Það er eins og það séu einhver álög á svissneska skíðalandsliðinu. Gisin er þriðji ríkjandi ólympíumeistarinn í svissneska kvennaliðinu sem meiðst við æfingar á stuttum tíma. Lara Gut-Behrami og Corinne Suter hafa lent í því sama nýverið.

Ólympíutímabili Gut-Behrami lauk þegar hún sleit krossband í vinstra hné er hún féll á æfingu í Copper Mountain í Colorado í nóvember.

Suter hefur fyrir sitt leyti verið frá keppni í um mánuð vegna meiðsla á fæti, hné og ökkla eftir fall á æfingu í St. Moritz nýlega.

Hin 32 ára gamla Michelle Gisin á gull frá síðustu tveimur Ólympíuleikum í tvíkeppni.

Þegar tiltölulega fáar vikur eru til Ólympíuleikanna á Ítalíu eru Svisslendingar skyndilega án stórs hluta af hraðgreinaliði sínu í kvennaflokki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×