Erlent

Japanir saka Kín­verja um ó­var­lega fram­göngu í há­loftunum

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Flugmóðurskipið Liaoning kom úr slipp í fyrra eftir viðgerðir sem tóku um það bil ár.
Flugmóðurskipið Liaoning kom úr slipp í fyrra eftir viðgerðir sem tóku um það bil ár. Getty/VCG

Forsætisráðherra Japan segir þarlend stjórnvöld munu grípa til yfirvegaðra en afdráttarlausra viðbragða vegna atviks sem átti sér stað um helgina, þar sem kínverskar herþotur eru sagðar hafa fest radarmið á japanskar herþotur.

Um er að ræða alvarlegan atburð, þar sem þetta gefur til kynna að árás sé mögulega yfirvofandi og knýr skotmarkið til að grípa til varnarviðbragða. Þetta mun vera í fyrsta sinn sem þetta hefur gerst í samskiptum Kína og Japan, samkvæmt fréttaveitunni Kyodo. 

Atvikið er sagt hafa átt sér stað suðaustur af Okinawa eyjum, þar sem kínverski herinn er sagður hafa staðið í heræfingum. Samkvæmt japanska varnarmálráðuneytinu tóku um hundrað herþotur á loft af flugmóðurskipinu Liaoning en í kjölfarið hafi J-15 þotur Kína tvívegis fest mið á F-15 þotur Japan.

Sendiherra Kína í Japan var kallaður á teppið í gær en Kínverjar hafa hafnað fullyrðingum Japana og saka þá um að hafa elt uppi og „áreitt“ Liaoning-flotann á meðan hann var við æfingar.

Aukinnar spennu hefur gætt í samskiptum Japan og Kína á síðustu vikum, eftir að forsætisráðherra Japan, Sanae Takaichi, sagði að Japanir myndu mögulega grípa til aðgerða ef kínverski herinn léti til skarar skríða gegn Taívan.

Donald Trump Bandaríkjaforseti sá sig knúinn til að tjá sig um málið og hvatti Takaichi til að forðast frekari stigmögnun gagnvart Kína, en forsætisráðherrann hefur neitað að draga ummæli sín til baka.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×