Erlent

Hvelfingin um Tsjernobyl-verið stöðvar ekki kjarn­orku­geislun

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Fimmtán fermetra gat er á hvelfingunni.
Fimmtán fermetra gat er á hvelfingunni. EPA

Steinhvelfingin utan um Tsjernobyl-kjarnorkuverið í Úkraínu getur ekki uppfyllt hlutverk sitt um að stöðva geislun, samkvæmt Alþjóðakjarnorkumálstofnuninni. Sprengjudróni hafnaði á hvelfingunni í febrúar.

Írönskum Shahed-sprengjudróna var flogið á steinhvelfinguna sem byggð var yfir Tsjernobyl-kjarnorkuverið til að koma í veg fyrir frekari geislamengun. Dróninn gerði fimmtán fermetra gat í ytri byrði hvelfingarinnar og kviknaði eldur sem tók tvær vikur að slökkva.

Vólódímir Selenskí Úkraínuforseti hélt því fram að um hafi verið að ræða árás á vegum Rússa, en þeir neituðu öllum ásökunum. Alþjóðakjarnorkustofnunin (IAEA) hefur framkvæmt athuganir á hvelfingunni. 

Samkvæmt The Guardian sagði Rafael Grossi, framkvæmdastjóri IAEA, að nýjasta eftirlitsferðin hefði staðfest að varnarvirkið hefði glatað helstu öryggisvirkni sinni, þar á meðal innilokunargetu. Hins vegar eru engar varanlegar skemmdir á burðarvirkjum steinhvelfingarinnar eða vöktunarkerfunum.

Nú þegar væri búið að ráðast í einhverjar viðgerðir en umfangsmikil endurreisn væri nauðsynleg til að tryggja öryggi til langs tíma. 

Kjarnaofn númer fjögur í Tsjernobyl sprakk í versta kjarnorkuslysi sögunnar árið 1986. Sovétmenn byggðu steinhvelfingu yfir kjaranofninn sem átti að endast í þrjátíu ár. Því var ráðist í að byggja steinhvelfingu utan um allt kjarnorkuverið og lauk framkvæmdum árið 2019. Bygging steinhvelfingarinnar kostaði alls 1,5 billjónir evra, rúma 223 milljarða íslenskra króna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×