Fótbolti

Setja fyrir­liða sinn í bann fyrir lé­legt við­horf

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Emanuel Emegha er fyrirliði Strasbourg og lætur hér Lucas Hogsberg heyra það í leik.
Emanuel Emegha er fyrirliði Strasbourg og lætur hér Lucas Hogsberg heyra það í leik. Getty/ Justin Setterfield

Emmanuel Emegha er fyrirliði franska félagsins Strasbourg en hann er líka á leiðinni til Chelsea í sumar. Franska félagið er ekki ánægt með hugarfar leikmanns síns og hefur gripið til óvenjulegra aðgerða.

Emegha hefur verið settur í að minnsta kosti eins leiks bann af félagi sínu vegna slæms viðhorfs undanfarnar vikur.

Emegha er 22 ára hollenskur landsliðsmaður en hann mun missa af útileiknum gegn Toulouse í Ligue 1 á laugardag. Búist er við að hann verði aftur með í ferðinni til Aberdeen í Sambandsdeildinni í næstu viku en það hefur ekki enn verið staðfest.

Strasbourg reiddist nokkrum opinberum ummælum sem Emegha lét falla í viðtölum nýlega. Hann sagði frönskum fjölmiðlum að ástæðan fyrir því að lið hans tapaði gegn AS Monaco, Paris Saint-Germain eða Marseille fyrr á þessu ári væri sú að „hann hafði ekki spilað í þessum leikjum,“ eins og hann orðaði það

Hann sagði einnig við hollenskt dagblað að hann hefði haldið að Strasbourg væri í Þýskalandi áður en hann kom frá Sturm Graz sumarið 2023.

Sum hegðun hans á vellinum hefur heldur ekki farið vel í menn innan félagsins – Liam Rosenior, knattspyrnustjóri Strasbourg, átti langt samtal við framherjann um viðhorf hans.

Harðkjarna stuðningsmenn Strasbourg púuðu á hann og mótmæltu eftir að tilkynnt var um félagaskipti hans til Chelsea í september.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×