Íslenski boltinn

Murielle elti Óskar í Garðabæinn

Sindri Sverrisson skrifar
Murielle Tiernan er mætt í búning Stjörnunnar.
Murielle Tiernan er mætt í búning Stjörnunnar. Stjarnan

Kvennalið Stjörnunnar í fótbolta hefur tryggt sér krafta markahróksins Murielle Tiernan sem kemur til félagsins, líkt og nýr þjálfari liðsins, frá Fram.

Murielle hefur gjörsamlega raðað inn mörkum á íslenskum fótboltavöllum síðan hún kom fyrst hingað til lands til að spila með Tindastóli í 2. deild árið 2018. Það sumar skoraði hún 24 mörk í 14 leikjum og hún skoraði svo 49 mörk á tveimur árum í Lengjudeildinni þegar Tindastóll vann sig upp í efstu deild. 

Hún lék með Tindastóli fram að sumrinu 2024 þegar hún kom til Fram og átti ríkan þátt í að koma liðinu upp í Bestu deildina. Þar skoraði hún svo ellefu mörk í 21 leik á síðustu leiktíð og átti sinn þátt í að halda Fram uppi. Alls hefur Murielle skorað 21 mark í 58 leikjum í efstu deild og 77 mörk í 69 leikjum í næstefstu deild hér á landi.

„Ég tel það mikilvægt skref í uppbyggingarfasanum sem við viljum taka á næstu árum að vera með réttu karakterana,“ segir Óskar Smári Haraldsson, þjálfari Stjörnunnar, sem þjálfað hefur Murielle hjá Fram síðustu tvö ár.

„Murielle Tiernan er ekki bara fantagóður framherji sem kann að skora mörk heldur er hún jákvæður leiðtogi sem gefur af sér, bæði innan sem utan vallar. Ég er gríðarlega ánægður að fá hana í Garðabæinn og vænti mikils frá henni,“ segir Óskar Smári á Facebook-síðu Stjörnunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×