Innlent

Leitar bróður sem hún hefur aldrei hitt

Smári Jökull Jónsson skrifar
Sara Dís leitar nú að bróður sínum sem hún hefur aldrei hitt.
Sara Dís leitar nú að bróður sínum sem hún hefur aldrei hitt. Vísir/Anton Brink

Ung kona ákvað eftir að hafa horft á þáttinn Blóðbönd á Sýn að gera tilraun til að finna bróður sinn sem hún hefur aldrei hitt. Hún segist óska þess að hafa nýtt tækifæri til þess á sínum tíma og að viðbrögðin við myndbandi sem hún birti á TikTok hafi verið mikil.

Sara Dís Gunnarsdóttir birti myndband á TikTok í gær þar sem hún sagði sögu sína. Þegar Sara var á unglingsaldri greindi pabbi hennar frá því að hann ætti son sem væri í raun rangfeðraður og vissi hvorki af sér né Söru Dís.

Faðir Söru Dísar og systir létust bæði með stuttu millibili árið 2017 og í kjölfarið gerði hún tilraun til að finna bróður sinn en án árangurs. Eftir að hafa horft á þáttinn Blóðbönd á Sýn hafi hún ákveðið að gera aðra tilraun.

Leitar bróður sem hún hefur aldrei hitt

„Ég var unglingur á þessum tíma. Þetta var á árunum á milli 2010 og 2015 sem hann segir mér þetta, þá erum við fyrir utan Olís í Mjódd og hann segir við mig: „Ég ætla að fara inn, sonur minn er að vinna hérna og ég fer oft hingað að kíkja á hann“, sem er mjög krúttlegt,“ sagði Sara Dís í viðtali sem birtist í kvöldfréttum Sýnar.

Við andlát föður hennar og systur árið 2017 hafi hún farið að hugsa málið.

„Þegar þau dóu þá ákvað ég að reyna að finna hann því hún var eina systkini mitt pabba megin. Svo varð ekkert úr því og ég fann hann ekki. Svo komu þessir þættir og þá hugsaði ég með mér að ég yrði að finna hann.“

„Ég vildi óska þess að ég hefði farið inn“

Hún segir pabba sinn hafa fengið staðfest frá móðurinni að hann væri faðirinn en viljað virða ósk hennar um að halda því leyndu þar sem konan var sjálf í sambandi. Í áfallinu eftir andlát föður hennar og systur séu ákveðin tímabil í lífinu sem hún man ekki vel eftir.

Hún man þó eftir augnablikinu fyrir utan Olís í Mjóddinni.

„Í minningunni man ég mjög sterkt að hann hafi sýnt mér mynd af honum og mér fannst þeir mjög líkir og mér fannst hann heita einhverju sérstöku nafni og ég man ekki hvað það var.“

„Ég man bara mjög mikið þetta móment, ég held að þetta hafi verið eina mómentið sem hann segir mér þetta. Ég held að ég hafi ekki áttað mig á því þarna að ég ætti bróður, hann er þarna inni. Ég vildi óska þess í dag að ég hefði farið inn.“

Málið sé viðkvæmt en hún eigi engan eftir

Sara Dís segist gera sér grein fyrir að málið gæti verið viðkvæmt fyrir fjölskyldu bróður síns en hún eigi líka rétt á því að þekkja hann.

„Á þeim tíma vill móðir hans ekki segja honum að hann sé rangfeðraður og pabbi vildi virða það. Ég hef alveg hugsað hvort hún verði brjáluð út í mig en ég á rétt á að hitta bróður minn og ég á engan eftir pabba megin og það væri svo gaman að hitta hann.“

„Það væri náttúrulega ótrúlega gaman að finna hann en kannski vill hann ekkert hafa samband við mig. Kannski hefur hann ekki áhuga en það er allt í lagi en það væri samt gaman að vita hver hann er. Kannski á hann börn og ég systkinabörn og svo eru alls konar sjúkdómar í ættinni hjá pabba sem mér finnst rangt að hann viti ekki af.“

Fyrrum starfsmaður Olís hafði samband

Sara fékk mikil viðbrögð við myndbandinu á TikTok og meðal annars hafi aðili haft samband sem vann á Olís á áðurnefndum tíma og bauð fram aðstoð.

„Ég er mjög opin á netinu og hef alltaf verið. Eftir að ég sá þessa þætti þá hugsaði ég með mér að internetið væri svo sterkt og að það gæti verið að ef ég set myndbandið inn þá muni einhver hjálpað mér og ég fæ tengsl.“

„Ég ákvað að deila þessu og fullt af fólki hefur sent mér skilaboð. Svo var ein sem skrifaði við myndbandið sem var að vinna þarna á svipuðum tíma og ég er búinn að spyrja hvort ég gæti fengið að heyra í henni.“

Hún gerði tilraun á sínum tíma til að hafa uppi á bróður sínum en komst lítið áfram.

„Þá náði ég að tala við nokkra sem unnu hjá Olís og leitaði að upplýsingum í spjaldtölvunni hans pabba. Ég fann ekkert út úr þessu en ég er ekki enn búinn að láta taka DNA-próf en hann eða hans börn þyrftu þá líka að vera búin að taka þannig próf svo það gangi upp.“

Hún segir ýmsar tilfinningar fylgja svona löguðu og segist viss um að pabbi sinn væri stoltur af henni og hennar ákvörðun.

„Því hann þráði að kynnast drengnum en hann vildi ekki brjóta traustið á milli þeirra í fjölskyldunni hans. Ég vil ekki vera vond við aðra en þetta er bróðir minn og ég er systir hans.“

„Væri mjög gaman ef þú myndir hafa samband“

Hún sendir skilaboð út í samfélagið í von um að bróðir hennar finnist.

„Ef þú varst að vinna á Olís í Mjódd á árunum 2010 til 2015 og þér finnst þú vera líkur pabba mínum ef þú sérð mynd af honum, þá væri mjög gaman ef þú myndir vilja hafa samband við mig en ég skil vel ef þetta er viðkvæmt mál og þú vilt það ekki.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×