Innlent

Meðal­bíla­leigu­bíllinn verði fyrir mestum á­hrifum

Bjarki Sigurðsson skrifar
Benedikt S. Benediktsson er framkvæmdastjóri Bílgreinasambandsins.
Benedikt S. Benediktsson er framkvæmdastjóri Bílgreinasambandsins. Vísir/Anton Brink

Nýskráningar bíla í nóvember voru tæplega þrefalt fleiri en í sama mánuði í fyrra. Mikla aukningu má líklegast rekja til hækkunar vörugjalda um áramótin að sögn framkvæmdastjóra Bílgreinasambandsins. Bílaleigur sem ekki kaupa rafbíla verði fyrir hvað mestum áhrifum.

Um áramótin hækka vörugjöld á bíla sem ganga fyrir bensíni og dísil. Gjald fólksbíla fer úr fimm prósentum í fimmtán. Gjöld á bíla sem áður báru þrettán prósenta vörugjald, svo sem vinnuvélar, fara í tuttugu prósent og gjöld á hópferðabifreiðar, bifhjól og fjórhjól fara úr þrjátíu prósentum í fjörutíu.

Fólk kaupi bíl strax

Fjölmörg bílaumboð hafa í aðdraganda hækkunarinnar hvatt fólk í bílahugleiðingum að ganga frá kaupum fyrr en síðar, enda verði bílarnir dýrari eftir áramót.

Dæmi um auglýsingar frá bílaumboðum þar sem fólk er látið vita af hækkuninni.Vísir/Sara

Líklegt er að auglýsingarnar hafi borið árangur en fjórtán hundruð ökutæki voru nýskráð í nóvember. Sama mánuð í fyrra voru þau fimm hundruð.

Fjöldi nýskráðra bíla var tæplega þrefaldur í nóvember í ár miðað við sama mánuð á síðasta ári.Vísir/Sara

Töluverð áhrif

Benedikt S. Benediktsson, framkvæmdastjóri Bílgreinasambandsins, segir gríðarlega fjölgun nýskráðra tvinnbíla vekja athygli.

„Ef þetta fer fram sem horfið, verði þessi aukning fyrir áramót og þá verður væntanlega lág deyða í sölu á nýjum bílum fram eftir næsta ári. Jafnvel fram yfir verslunarmannahelgi eða eitthvað slíkt. Þá má gera ráð fyrir því að sala á rafmagnsbílum verði í góðu horfi þar sem þetta hefur minni háttar áhrif á hana. En þegar það kemur að öllum bílum sem að einhverju leyti ganga fyrir jarðefnaeldsneyti, já þá má gera ráð fyrir að það hafi töluverð áhrif,“ segir Benedikt. 

Fáir vilji leigja rafbíla

Sextíu og fimm prósent nýskráðra bíla einstaklinga eru rafmagnsbílar og hækkun gjaldanna nær því ekki til þeirra. Hins vegar eru rafbílar eingöngu tæp níu prósent af nýskráningum bílaleiga.

„Helmingurinn af kaupendum eru bílaleigur. Það eru erfiðleikar sem þær þurfa að glíma við þegar kemur að því að koma rafbílum í útleigu. Þannig að þar er eitthvað verkefni sem þarf að vinna,“ segir Benedikt. „Það er alla vega ljóst að meðalbílaleigubíll og svipaðir bílar munu taka hvað mestri hækkun ef fram fer sem horfir,“ segir Benedikt. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×